145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

afgreiðsla þingmála fyrir þinglok.

[15:34]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra og byrja á því að óska honum til hamingju með daginn. Ég spyr á svipuðum nótum og hv. þingmenn hér á undan. Samkvæmt stjórnarskránni er Ísland þingbundið lýðveldi og framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, situr í skjóli þingsins. Það skiptir máli fyrir ríkisstjórnina hvernig mál koma inn í þingið. Við þekkjum það öll að það getur verið flókið ferli, sérstaklega þegar mál eru stór eða flókin.

Mig langar til að beina fyrirspurn til verkstjóra ríkisstjórnarinnar, sem hæstv. forsætisráðherra vissulega er. Ég spyr hvort hann hafi ekki orðið áhyggjur af því, í ljósi þess hve fáir þingdagar eru eftir samkvæmt starfsáætlun, og fáir þingdagar í spilunum fram að kosningum í haust, að ekki sé orðið skýrara fyrir okkur þingmönnum, í stjórn og stjórnarandstöðu, hvaða mál það eru sem á að setja á oddinn og leggja vinnu í.

Við vitum að í nefndum og í ferli í þinginu er fullt af málum sem hafa komið fram núna í vetur; talsvert af málum og mörg þeirra eru frekar yfirgripsmikil sem ríkisstjórnin lagði fram á síðasta degi rétt áður en ósköpin dundu yfir fyrir nokkrum vikum og nýr forsætisráðherra tók við. Ég held að það væri mjög mikilvægt fyrir okkur í þinginu, en ekki síður fyrir ríkisstjórnina og hæstv. forsætisráðherra sem verkstjóra, að þetta lægi sem fyrst ljóst fyrir þannig að við vissum að hvaða mikilvægu málum við ætluðum að einbeita okkur.