145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki svo viss um að það sé svo langt á milli okkar hv. þingmanns í þessu efni. Þetta er nokkuð sem við þurfum öll að vera meðvituð um. Þetta þarf að skoða og þarf alltaf að skoða þegar svona aðferðum er beitt, alveg sama þótt þær hafi virkað áður. Stríð hafa oft virkað. Viðskiptaþvinganir hafa oft virkað, en það þýðir ekki að maður þurfi ekki að pæla í þessum atriðum áður, enda veit ég að hv. þingmaður var ekki að tala gegn því sem ég sagði.

Þá geri ég ráð fyrir því að til greina komi að breyta tillögunni við meðferð þingsins þannig að það sé alveg skýrt að gera þetta með því móti að það komi helst ekki, en alla vega sem allra minnst niður á hagsmunum saklauss fólks. Mér finnst alveg eðlilegt að taka það með í umræðuna.

En eins og ég segi, þetta hlýtur að koma betur í ljós við meðferð þingsins. Á þessu stigi hef ég áhyggjur af þessu og mér finnst mikilvægt að við ræðum það. Mér finnst mikilvægt að við ræðum það upphátt og mér finnst mikilvægt að við tökum þátt í rökræðu í þessu sambandi. Það er engin ástæða til að hafa miklar áhyggjur af afstöðu þess sem hér stendur akkúrat á þessum tímapunkti vegna þess að sú afstaða er algerlega mótanleg eftir þeim upplýsingum sem berast og þeim ágætu rökum sem margir hinir sérstaklega háttvirtu þingmenn geta borið hér á borð.