145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

607. mál
[18:43]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stuðning við Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Ingu Dóru Markussen, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins.

Tillögunni er ætlað að tryggja stuðning ríkisstjórnarinnar við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Vestnorræna ráðið hefur undanfarin ár lagt aukna áherslu á málefni norðurslóða og beitt sér fyrir aukinni umræðu um lýðræði á norðurslóðum enda er ráðið skipað þjóðkjörnum fulltrúum vestnorrænu landanna þriggja og þar með fulltrúum íbúa norðurslóða.

Nefndin áréttar að áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráðinu mundi tryggja aukna aðkomu þess að málefnum norðurslóða og gefa fulltrúum þess aðgang að fundum ráðsins sem og þátttökurétt í vinnuhópum þess. Vestnorrænu löndin þrjú fengju þannig aukin tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun á svæðinu en Ísland á nú, eitt landanna þriggja, sæti í Norðurskautsráðinu. Nefndin telur að yfirlýstur stuðningur ríkisstjórnar Íslands við umsókn Vestnorræna ráðsins styrkti umsóknina og gæfi henni aukið vægi. Sambærileg stuðningstillaga hefur þegar verið samþykkt í Færeyjum og á grænlenska þinginu verður slík tillaga til umfjöllunar í maí.

Nefndin telur mikilvægt að þjóðkjörnir fulltrúar íbúa norðurslóða fái áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu enda gefi það þeim tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum íbúa norðurslóða og gæta réttinda þeirra og hagsmuna.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir þetta rita nefndarmenn hv. utanríkismálanefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður, Karl Garðarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Frosti Sigurjónsson, Elín Hirst, Óttarr Proppé, sú sem hér stendur, Steinunn Þóra Árnadóttir og Össur Skarphéðinsson.