145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:21]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár sé loksins komin. Það hefði verið betra að fá hana inn aðeins fyrr og ég tek undir gagnrýni fyrri ræðumanna varðandi það allt saman. Hins vegar er margt gott á sama tíma og annað sem þarf að skoða betur til að fá betri yfirsýn yfir það hver raunverulega stefnan er og hvort við séum sammála þegar kemur að henni. Ég tel Íslendinga almennt vera sammála þegar kemur að stóru málunum, eins og til dæmis heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu og velferðarkerfinu yfir höfuð. Það er eitthvað sem við viljum eyða samneyslunni í.

Mig langar að byrja á að fagna því að það sé efnisyfirlit í þingsályktunartillögunni. Ég gerði mikið veður út af því við upphaf þingfundar að fjárlögin væru ekki með efnisyfirliti, þannig mér finnst gott að sú athugasemd komst til skila. (Gripið fram í: Er efnisyfirlit?) Já, það er efnisyfirlit. (Gripið fram í.) Ég fagna því. Ég fagna að það sé efnisyfirlit, það er frábært.

Hér er margt gott. Ég er einstaklega fegin því að sjá hvaða vægi umboðsmaður Alþingis fær í tillögunni en m.a. er lögð sérstök áhersla á að umboðsmanni verði gert kleift að sinna frumkvæðisathugunum. Þá er talað um að mjög mikilvægt sé að sérstakir starfsmenn verði ráðnir til að geta sinnt því af meiri krafti en áður hefur verið, þar sem umboðsmaður Alþingis er þannig lagað séð ekkert sérstaklega dýrt embætti en gífurlega mikilvægt fyrir íslenskt stjórnkerfi. Það er ekki gott ef eitt af mikilvægustu embættum landsins í því að tryggja lýðræði og að framkvæmdarvaldið, þingið sjálft og heimurinn í kringum okkur virki almennilega er fjársvelt. Ég vona því virkilega að þetta nái fram að ganga og að tekið verði tillit til þess að umboðsmaður Alþingis þarf jafnvel meiri fjárstuðning en áður. Við þurfum að taka það alvarlega sem umboðsmaður hefur komið á framfæri til hv. fjárlaganefndar, þ.e. að hann þurfi aukið fjármagn til að sinna frumkvæðisrannsóknum og til að bregðast við því gífurlega álagi sem hefur verið á embættinu, sérstaklega eftir hrun þar sem kvörtunum til umboðsmanns Alþingis fjölgaði gífurlega. Ég ætla ekki að tala mikið um það.

Það er vert að minnast á ferðaþjónustuna og hlutverk hennar í því að greiða fyrir innviðum. Ferðamenn fá t.d. virðisaukaskattinn endurgreiddan ef þeir sækja um það sérstaklega. Þarna eru nokkur hundruð milljónir greiddar til baka. Við þurfum alvarlega að íhuga hvort það sé í raun og veru rétt meðan við erum að byggja upp innviði til að taka á móti ferðamönnum. Er ekki betra að reyna að skerða á þennan hátt í stað þess að reyna að fá það úr vösum Íslendinga? Margar þessara leiða, t.d. leiðin á Gullfoss og Geysi og það allt saman, eyðast mun fyrr en ella þar sem það er svo mikill flutningur fólks þarna á milli, sérstaklega ferðamanna. Það fara tugþúsundir ferðamanna um þennan veg á mjög skömmum tíma, sem er mun meira en vegurinn var upphaflega hannaður fyrir. Það er alveg hægt að gera einhverjar breytingar þar á til þess einfaldlega að standa straum af auknum kostnaði sem samfélagið þarf að fást við. Þarna er algerlega hægt með lítilli reglugerðarbreytingu að annaðhvort afnema þessa ívilnun til ferðamanna, þ.e. að þeir fái til baka hluta af virðisaukaskattinum, eða einfaldlega lækka þá skattprósentu. Það væri frábært ef þessir fjármunir færu til þess að styrkja þá innviði sem þarf svo að hægt sé að markaðssetja Ísland sem almennilegt land til að ferðast um, eins og við viljum öll vera láta.

Að öðrum málum sem ég tók eftir í áætluninni. Ég saknaði þess svolítið að sjá ekki nógu glögglega aðgerðir þegar kemur að geðheilbrigði. Nýlega var samþykkt ákveðin geðheilbrigðisáætlun. Ég held að það sé á nokkrum stöðum minnst á m.a. að ráða eigi fleiri sálfræðinga á heilsugæslustöðvar. En við þurfum virkilega að pæla í því hvort við eigum ekki að fara að endurgreiða að hluta eða öllu leyti heimsóknir til sálfræðinga þar sem þeir eru náttúrlega hluti af velferðarkerfi okkar og við þurfum að taka þá inn í velferðarkerfið. Þeir eru mjög mikilvægir til þess að halda geðheilbrigði þjóðarinnar á góðum stað.

Sama gildir um heimilislækna. Það er mjög mikilvægt að við séum með sterkt heimilislæknakerfi en á sama tíma þarf það að vera sambærilegt því sem er í ríkjum annars staðar á Norðurlöndum. Það hefur verið mikill spekileki í læknastéttinni þegar kemur að því hvort þeir vilji einfaldlega búa hér á landi. Það er mjög mikil áskorun fyrir ríkisstjórnina að bjóða upp á almennileg kjör fyrir lækna, ekki síst heilsugæslulækna ef við ætlum að fara út í þær breytingar á kerfinu sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur stungið upp á. Í því felst m.a. að heimilislæknarnir þurfa að vera fyrsta stoppistöðin. Það þurfum við að bæta. Ég mundi vilja sjá frekari áherslur þegar kemur að því hvernig við ætlum að halda í læknana okkar. Það þýðir ekkert að vera með heilbrigðiskerfi sem enginn vill vinna í. Það er mjög mikilvægt að uppfæra allan húsakostnað og þar eftir götunum.

Það er eitt sem ég hefði viljað fá hæstv. fjármálaráðherra til að svara en hann getur kannski svarað mér því seinna. Ég fann ekkert í þessari fjármálastefnu varðandi stöðugleikaframlagið og það einkahlutafélag sem var stofnað, Lindarhvol. Ég hefði viljað sjá í áætluninni hver stefnan er. Kannski hefur mér yfirsést það en þess vegna hefði verið fínt að hafa hæstv. fjármálaráðherra hérna til að svara þeirri fyrirspurn. Þar sem hann er ekki í salnum efast ég um að hann geti það.

Háskólarnir eru mikið í umræðu. Hér stendur, með leyfi forseta, um stuðning við námsmenn:

„Námsmönnum sem taka lán hjá LÍN hefur farið fjölgandi, meðalnámstími lengst og meðalupphæð lána hækkað.“

Ég skil ekki hvernig það getur komið nokkrum manni á óvart þar sem það hefur verið stöðug fólksfjölgun undanfarna eina og hálfa öld. Við höfum aldrei verið fleiri en akkúrat núna. Ég tók nokkrar tölur til gamans. Árið 1961, sem er sama ár og Lánasjóður íslenskra námsmanna var stofnaður, voru 177.292 manns á Íslandi. Árið 1990, sem er fæðingarár mitt, hafði þeim fjölgað í 253 þúsund. Núna 2016 eru íbúarnir í 332 þúsund. Á þessu 26 ára tímabili, frá 1990–2016, hefur orðið 26% fólksfjölgun. Það var náttúrlega mikið til út af hækkun fæðingartíðni. Þetta ætti því ekki að koma nokkrum manni á óvart. Þegar ég var í leikskóla var verið að byggja við grunnskólana svo það væri pláss fyrir okkur. Ég skil ekki alveg þann rökstuðning sem kemur hérna fram. Það er eins og þetta sé eitthvert vandamál. Hins vegar þurfum við að vera með námslánakerfi sem virkar þannig að hver kynslóð geti séð fyrir sér. Mér finnst mín kynslóð líða fyrir að fólkið sem fékk námslán árið 1961 og þar á eftir hafði jafnari tækifæri til að stunda menntun en við. Þetta sést m.a. í þeim arfaslöku úthlutunarreglum sem voru að birtast þar sem framfærslukostnaður erlendra námsmanna er lækkaður um allt að 30% á einu bretti. Það er mjög sorglegt. Ég væri til í að fá heildstæðari stefnu um tilgang háskólastigsins og þá sérstaklega um námslánin. Stórar kynslóðir eru að koma inn í háskólana og viðbúið að þær taki námslán. Það má búast við fólk fari í lengra nám en áður þar sem okkur hefur verið sagt í 20–30 ár að menntun skili sér. Ef það er ekki málið, ef við þurfum meira af verkafólki eða verkmenntuðu fólki eða fólki með öðruvísi reynslu þarf bara að fara að segja það. Það er allt í lagi. Það þurfa ekki allir að vera með háskólamenntun, það er bara þannig. Ég skil ekki af hverju þetta ætti að koma á óvart. Mér finnst þetta mjög eðlilegur vöxtur og hluti af eðlilegum útgjöldum fyrir ríkissjóð að takast á við það.

Til þess að ljúka máli mínu vil ég segja að það væri gott að fá almennilega stefnu í sambandi við þetta. Margt ungt fólk á erfitt með að festa kaup á sinni fyrstu íbúð nema það hafi einhvern fjárstuðning. Vandamálið þar, fyrir mig persónulega og ég hef heyrt fleiri rekast á það, er að þegar maður er námsmaður á aldrinum 20–26 ára eða 20–30 ára má maður einungis vera með um 2,5 millj. kr. í tekjur á ári án þess að það komi niður á manni sem námsmanni. Það er verið að gera fólki mjög erfitt að safna sér fyrir útborgun í íbúð með kerfinu eins og það er í dag. Mér datt í hug í fljótu bragði hvort ekki væri hægt að hafa það þannig, til að hvetja námsmenn hreinlega til að leggja fyrir, að það sem væri sett inn á sérstaka húsnæðisbók væri undanskilið framfærsluskyldu eða frítekjumarki eða eitthvað þar um bil, einfaldlega af því að margir námsmenn hafa tök á því að vinna meira með námi en hafa oft ekki tök á að festa kaup á íbúð. Þótt það hafi verið gert auðveldara með því að leyfa fólki að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn sinn til að nota upp í íbúð breytir það því ekki að þegar tekjurnar eru aðeins tæplega milljón á ári hefur fólk ekki úr miklu að spila. Við erum að tala um að ef maður getur lagt fyrir 10 þús. kr. á mánuði tekur það um 25 ár að safna fyrir útborgun á 25 millj. kr. íbúð. Þetta er einföld stærðfræði. Því miður er hluti af þessu vandamáli það hvernig LÍN-kerfið er. Þetta er eitthvað sem þarf að bæta og hugsa miklu heildstæðara en hefur verið gert. Viljum við að ungt fólk hafi efni á að festa kaup á íbúð? Ef svarið er já get ég sagt að það er eitt sem við þurfum að laga og það er frítekjumark LÍN. Við þurfum að koma til móts við fólk, sérstaklega ungt fólk í námi, þannig að það sé með eitthvað milli handanna að loknu námi og geti fest kaup á íbúð.

Þar sem ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er hérna ætla ég að endurtaka hrós mitt frá því í byrjun um hversu frábært er að sjá góðar áherslur þegar kemur að umboðsmanni Alþingis en síðast en ekki síst að það skuli vera efnisyfirlit. Það gleður mig alveg einstaklega.