145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Um leið vil ég segja að ég á mér þann draum að mál eins og þessi séu sett í þannig farveg að öllum gögnum sé safnað og þau greind og þannig unnið úr þeim að ekkert þurfi að ræða þau frekar, þetta bara gerist sjálfkrafa, það sé ákveðin fjármögnun sem fari í öryggismál í umferðinni. Það mundi því alltaf liggja fyrir hvað við höfum mikið fjármagn og hvernig er best að forgangsraða því eftir því hvar slysin verða, hvar mesta áhættan er, hvar álagið hefur aukist og hvernig hægt er að bregðast við fyrir fram. Það þarf ekki allt að kosta mikla peninga.

En það er staðreynd að við höfum tapað heilum áratug í samgöngumálum. Það er mikið verk að byggja upp þar. Á meðan þarf að greina hvað fljótlegast er að gera til úrbóta. Það bera allir ábyrgð. Það er ekki alltaf bara hið opinbera, hið opinbera á að koma og borga og hið opinbera á að redda þessu o.s.frv. Þetta er samstarf allra aðila sem eru í þessu; ferðaþjónustan, bílaleigur, tryggingafélög og samfélagið allt þarf að koma að þessu. En það sem hægt er að gera og hefur verið sett í forgang núna, sem er vel og vonandi verður það áfram þannig, er að settar hafa verið 430 millj. kr. á þessu ári sem Vegagerðin, Samgöngustofa og lögreglan eiga að forgangsraða í verkefni hvað umferðina snertir, m.a. í aukið eftirlit lögreglu. Það hefur sýnt sig að hægt er að koma í veg fyrir fjögur af hverjum fimm slysum í umferðinni ef eftirlitið er nógu öflugt. Þar má nefna að við erum búin að færa sérstakt umferðareftirlit frá Samgöngustofu til lögreglunnar sem auka mun sýnileika lögreglunnar í sumar. Þar er unnið með svartbletti, merkingu á einbreiðum brúm, sem verið hafa ferðamönnum mjög erfiðar, gerð verða undirgöng og hvíldarsvæði og annað slíkt. Svo er verið að vinna úr gögnum, setja upp sjálfvirkt eftirlit og margt fleira. Það er fullt af svona hlutum (Forseti hringir.) sem hægt er að gera án þess að fara í stórar samgönguframkvæmdir sem þurfa þó að koma í framhaldinu.