145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[13:45]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Já, það má nefnilega alveg vera glaður á Alþingi. Fyrir okkur í velferðarnefnd og örugglega fleiri þingmenn er þetta nokkuð stór dagur og er ástæða til að fagna og vera ánægður. Maður á að gleðjast þegar vel gengur og niðurstaðan er góð.

Flestir vilja eignast eigið húsnæði á einhverjum tímapunkti í lífi sínu en það verður alltaf til sá hópur sem ekki getur eða ekki vill eiga eigið húsnæði. Íslenskur húsnæðismarkaður er afar erfiður í dag, bæði hvað varðar kaup og leigu. Félagsvísarnir sem Hagstofan gefur út reglulega gefa góðar vísbendingar um velferð á Íslandi. Þeir sýna að stór hluti þeirra sem eru undir lágtekjumörkum hér á landi er á leigumarkaði. Stærstu hóparnir eru tekjulágir einstaklingar og einstæðir foreldrar og börn þeirra. Ný húsnæðisstefna ríkisstjórnarinnar gagnast m.a. þessum hópum. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstiga í ályktunum sínum um að nauðsynlegt sé að bæta húsnæðiskerfið. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu sumarið 2013 um aðgerðaáætlun í tíu liðum. Samkvæmt henni átti að taka á skuldavanda heimila með því að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán og gefa tækifæri til að nýta séreignarsparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Áætlunin kveður einnig á um að auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði. Markmið ríkisstjórnarflokkanna eru skýr: Við ætlum að bæta hag heimila landsins, ekki bara húseigenda heldur allra heimila.

Vorið 2013 var hafist handa við samningu fjögurra frumvarpa um húsnæðismál. Umfangsmikið samráð var haft við hagsmunaaðila. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt til málanna eins og yfirlýsing í tengslum við kjarasamningana síðastliðið vor sýnir. Í henni eru mikilvægir þættir húsnæðismála tilgreindir en framlag ríkisstjórnarinnar til þeirra samninga var m.a. að tryggja að húsaleiga efnaminna fólks yrði ekki hærri en 20–25% af ráðstöfunartekjum heimilanna. Það frumvarp sem við ræðum nú, frumvarp um almennar íbúðir og einnig frumvarp um húsnæðisbætur, sem er reyndar ekki nú til umræðu, eru sem sagt bæði hluti af samkomulagi ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins vegna kjarasamninga. Aðilar kjarasamninga fylgjast því grannt með því hvernig vinnu við umrædd frumvörp miðar en hafa þó skilning á að sú vinna taki tíma sökum umfangs og mikils flækjustigs. Aðalatriðið er að sameiginleg markmið náist, þ.e. að bæta húsnæðismarkaðinn á Íslandi svo allir geti búið í góðu og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.

Hv. þm. Páll Valur Björnsson las hér upp úr umsögn Alþýðusambands Íslands sem var mjög greinargóð. Ég ætla ekki að endurtaka hana, en þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Framgangur [frumvarpsins] er jafnframt mikilvægur þáttur þeirrar heildarlausnar sem aðilar vinnumarkaðar leita nú við endurskoðun kjarasamninga og sem ljúka þarf nú á fyrstu vikum ársins“ og styður ASÍ eindregið framgang þessa máls, eins og fram hefur komið.

Mannréttindaskrifstofa Íslands sendi einnig inn umsögn um frumvarp um almennar íbúðir og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„MRSÍ fagnar framangreindu frumvarpi og telur hér vera stigin nauðsynleg skref í átt að rétta úr þeim vanda sem kominn er upp á leigumarkaði. Leiguverð hefur hækkað svo um munar á síðustu missirum, úr takt við alla launaþróun, og hefur það orðið til þess að þeir efnaminnstu sitja uppi húsnæðislausir og hafa ekki ráð [á] að leigja, hvað þá kaupa fasteign. Með frumvarpinu er lágtekjufólki, þar með töldum eldri borgurum, öryrkjum og innflytjendum gert auðveldara fyrir með að búa við mannsæmandi aðstæður.“

Til upplýsingar má geta þess að umsagnir voru margar og ítarlegar. Ég taldi rúmlega 200 blaðsíður þegar ég fór yfir gögnin aftur í gærkvöldi, þannig að úr nógu hefur verið að moða. Flestar voru umsagnirnar mjög jákvæðar, en nokkrir höfðu athugasemdir til úrbóta sem nefndin hefur að sjálfsögðu tekið tillit til í vinnu sinni.

Að þessu sögðu liggur alveg klárlega fyrir að þörfin á breyttu kerfi er svo sannarlega til staðar og viljinn til að breyta núverandi kerfi er einnig til staðar. Það er gott.

En áfram skal haldið. Velferðarnefnd hefur nú haft frumvörpin fjögur til umfjöllunar um allnokkurt skeið. Við vonuðumst til að afgreiða þau mun fyrr en raunin varð en sökum þess hve gríðarlega umfangsmikil málin voru töldum við sem í nefndinni sitjum nauðsynlegt að gefa okkur góðan tíma til að fara vandlega yfir hvert einasta atriði í frumvörpunum fjórum. Og það er ekki gert með annarri, eins og sagt er. Við erum í raun að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi og það verður ekki gert á vettvangi þingsins á aðeins örfáum vikum þó að umfangsmikið samráð hafi verið haft í heil tvö ár áður en nefndin fékk frumvörpin til umfjöllunar.

Eitt af fjórum frumvörpum hæstv. húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, frumvarp um húsnæðissamvinnufélög, hefur þegar verið afgreitt á Alþingi. Markmið þess er að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, gegnsæi í rekstri þeirra, auka réttindi íbúa og koma á auknu íbúalýðræði innan félaganna. Samstaða var um afgreiðslu þess máls.

Mig langar einnig að gera örstutta grein fyrir innihaldi þeirra frumvarpa sem ekki hafa enn ratað inn í þingsal, en eru í þinglegri meðferð hjá hv. velferðarnefnd. Það eru frumvörp um húsnæðisbætur, sem áður hefur verið nefnt, og húsaleigulög.

Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning við leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform. Það frumvarp er í raun hinn hluti frumvarps um almennar íbúðir. Þessi tvö frumvörp spila saman. Ef Alþingi klárar ekki bæði frumvörpin á yfirstandandi þingi nást ekki markmið frumvarpanna, þ.e. að leigjandi borgi ekki meira en 20–25% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og þá væru forsendur kjarasamninga einnig brostnar. Það má ekki gerast og það er því í höndum okkar þingmanna að afgreiða þessi mál eins hratt og örugglega og mögulegt er.

Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum felur hins vegar í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Í því frumvarpi er einnig verið að skerpa á atriðum sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár. Í raun er verið að snyrta núgildandi lög aðeins til í takt við tímann. Menn virðast vera nokkuð sammála um að þörf sé á þessum úrbótum og því almennt jákvæðir fyrir breytingum á húsaleigulögum.

Herra forseti. Eftir sæmilega langan inngang er ég loks komin að því að fjalla sérstaklega um fyrirliggjandi frumvarp, þ.e. frumvarp hæstv. húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur um almennar íbúðir. Þar sem málið er hluti af stærri heild taldi ég mikilvægt að eyða dágóðum tíma í innganginn til að varpa ljósi á samhengi hlutanna.

Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér grunn að nýju leiguíbúðakerfi að danskri fyrirmynd. Ríki og sveitarfélög leggja fram samtals 30% stofnframlag til byggingar á 2.300 íbúðum á þessu ári og næstu þremur árum vítt og breitt um landið. Framlag ríkis verður 18% af stofnvirði íbúðanna og getur falist í beinu fjárframlagi eða vaxtaniðurgreiðslu. Framlag sveitarfélaga verður 12% af stofnvirðinu og getur falist í beinu fjárframlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum. Krefjast má að framlögin verði endurgreidd þegar lán af íbúðunum hafa verið greidd upp en endurgreiðslur skulu þá nýttar til að styðja við öflun fleiri almennra íbúða sé þess þörf. Ný tegund sjálfseignarstofnana, svonefnd almenn íbúðafélög eða þá almenn félagsíbúðafélög, munu halda utan um rekstur á þessum almennu félagsíbúðum. Einnig er gert ráð fyrir að leigufélögum í eigu sveitarfélaga verði heimilt að fá stofnframlög að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá verði heimilt að veita sveitarfélögum stofnframlög til öflunar íbúða fyrir þá sem þeim ber lagaskylda til að veita úrlausn í húsnæðismálum. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að greiðslur frá eigendum almennra íbúða fari í nýjan Húsnæðismálasjóð. Ætlunin er að þegar fram í sækir styrki sjóðurinn frekari kaup eða byggingar íbúða og að almenna félagsíbúðakerfið verði þannig sjálfbært, lokað kerfi. Þá erum við að tala um nokkra áratugi fram í tímann, en það er mjög mikilvægt.

Íbúðirnar eru fyrir leigjendur sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, en miðað er við að það taki til fólks í tveimur lægstu tekjufimmtungum. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að kostnaður fari ekki yfir 20–25% af tekjum. Ekki er þó gert ráð fyrir að fólk þurfi að flytja úr íbúðunum fari það yfir tekju- og eignamörk. Hv. formaður velferðarnefndar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fór mjög vandlega yfir það atriði í ræðu sinni, þ.e. tekju- og eignamörkin og það sem nefndin bætti þar við. Ég ætla ekki að endurtaka það.

Ég vil tæpa sérstaklega á nokkrum atriðum úr nefndarálitinu sem er reyndar ansi viðamikið eins og gefur að skilja. Til gamans má geta þess að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hafði eitt sinn á orði í ræðustól Alþingis að umrædd húsnæðisfrumvörp ráðherra yrðu tæpast talin í blaðsíðufjölda heldur þyrftum við að tala um rúmmetra eða fermetra í þeim efnum. Það er nokkuð til í því hjá henni.

Fyrst vil ég fjalla um ákveðin atriði varðandi stofnstyrkina sem fram koma í 13. gr. frumvarpsins. Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að að óbreyttu frumvarpi beri ríki og sveitarfélög áhættu af því að kostnaður við almennar íbúðir fari fram úr áætluðu stofnvirði samkvæmt umsókn um stofnframlög, enda er gert ráð fyrir að stofnframlög miðist við raunverulegt stofnvirði. Til að takmarka þá áhættu leggur nefndin til að reynist endanlegt stofnvirði hærra en umsókn gerði ráð fyrir miðist stofnframlög við áætlað stofnvirði. Í því felst einnig aukinn hvati fyrir umsækjendur til að vanda til verka við áætlun stofnvirðis og halda kostnaði innan áætlana.

Útreikningar sem lagðir voru fyrir nefndina bentu til þess að nauðsynlegt væri að koma sérstaklega til móts við þá leigjendur sem verst stæðu ef leiga þeirra ætti að jafnaði ekki að vera umfram fjórðung tekna. Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar benti á að framan af við vinnslu frumvarpsins hafi verið gert ráð fyrir 4 prósentustiga viðbótarframlagi frá ríki vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga. Nefndin leggur til að heimilt verði að veita allt að 4 prósentustiga viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum. Þar sem um sérstakan stuðning er að ræða leggur nefndin til að framlagið verði ekki endurgreitt eftir uppgreiðslu lána.

Það er mjög mikilvægt atriði sem nefndin eyddi miklum tíma í að lagfæra frumvarpið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór einmitt vel yfir það atriði í ræðu sinni. Það er voðalega þægilegt að vera svona aftarlega á mælendaskrá, maður getur bara vitnað í hina. En það er mjög mikilvægt atriði að hægt sé að mæta þessum þjóðfélagshópum með viðbótarframlagi. Ég er mjög ánægð með þá breytingu.

Nefndin fór ítarlega yfir ýmis sjónarmið er lúta að viðvarandi markaðsbresti á húsnæðismarkaði á ákveðnum svæðum á landsbyggðinni og hvernig jafna megi út þann aðstöðumun þar við veitingu stofnstyrkja.

Fram kom á fundum nefndarinnar að sums staðar á landsbyggðinni væri skortur á leiguhúsnæði sem erfiðlega gengi að mæta því að ekki fengjust lán. Það ætti einkum við þar sem velta með fasteignir væri lítil eða markaðsverð verulega lægra en byggingarkostnaður og lánveitendur því tregir til að veita fasteignaveðlán. Í verstu tilvikum gæti jafnvel reynst ómögulegt að fjármagna leiguíbúðir þrátt fyrir 30% stofnframlag frá ríki og sveitarfélögum. Í ljósi þessara ábendinga leggur nefndin til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita allt að 6 prósentustiga viðbótarframlag á þessum svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki sökum þessa markaðsbrests. Um undantekningarheimild er að ræða sem nefndin gerir ráð fyrir að verði aðeins nýtt þegar ætla verður að 30% stofnframlag dugi ekki til. Nefndin leggur til hliðstæða breytingu á 16. gr. um stofnframlög sveitarfélaga. Heimildirnar verða þó sjálfstæðar. Ríki og sveitarfélagi verður þannig hvoru um sig heimilt að veita viðbótarframlag, hvort sem hinn aðilinn gerir það eður ei. Nefndin leggur þó til að sá munur verði á heimildunum að ekki megi krefjast endurgreiðslu á viðbótarframlagi ríkis eftir uppgreiðslu lána. Í því felst sérstakur byggðastuðningur frá ríki.

Ég fagna mjög þessu 6 prósentustiga viðbótarframlagi. Það er mikilvægt atriði til að gera frumvarpið betra fyrir alla landsmenn, á hvers konar markaðssvæði sem þeir kunna að búa. Það á ekki að skipta máli.

Nokkrir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar gagnrýndu að helmingur stofnframlags ríkis, sem væri í formi beins framlags, skyldi greiddur út þegar við samþykkt umsóknar, í því fælist aukin áhætta fyrir ríkið og hætta á misnotkun. Svipuð gagnrýni kom fram varðandi stofnframlög sveitarfélaga. Á móti kom fram að fyrirkomulagið auðveldaði fjármögnun almennra íbúða og drægi úr þörf á dýrum brúarlánum, en það ætti að skila sér í lægri leigu. Hvað mögulega misnotkun varðar bendir nefndin á að Íbúðalánasjóði er falið eftirlit með eigendum almennra íbúða. Misnotkun getur varðað refsingu, og er vísað í 27. gr. frumvarpsins og almenn hegningarlög. Nefndin leggur því ekki til breytingu að þessu leyti.

Varðandi byggðasjónarmiðin taldi nefndin brýnt að gera ákveðnar breytingar á 15. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um afgreiðslu umsókna. Nefndin leggur því til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að líta til byggðasjónarmiða við mat á umsóknum um stofnframlög. Það styrkir mjög svo byggðasjónarmiðin í frumvarpinu enn og aftur. Það gæti t.d. átt við ef skortur á leiguhúsnæði stæði atvinnuuppbyggingu í byggðarlagi fyrir þrifum. Byggðasjónarmið koma einnig til skoðunar við mat á því hvort veita beri viðbótarframlag vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði við fjármögnun.

Ég ætla að láta staðar numið við þessi atriði, þ.e. stofnstyrkina og framlögin. Mig langaði aðeins til að koma inn á þau atriði sem nefndin fjallaði um varðandi ákvörðun leigufjárhæðar og félagslega blöndun. Eitt af markmiðum frumvarpsins var að tryggja félagslega blöndun. Við viljum alls ekki að byggðar séu íbúðir í einhvers konar klösum og að þar verði til einhvers konar gettó, ef ég má orða það sem svo. Við vildum finna leiðir til að svo yrði ekki.

Við gerðum okkar besta og ég ætla að grípa aðeins niður í nefndarálitið. Í 1. og 2. málslið 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins er áskilið að leiga fyrir almennar íbúðir miðist við áfanga, þ.e. stofnframlög á 12 mánaða tímabili. Fyrir nefndinni kom fram að þessu ákvæði væri ætlað að gera leiguna fyrirsjáanlegri. Leigjendur gætu treyst því að leiga hækkaði ekki vegna þess að almennt íbúðafélag réðst í öflun nýs og dýrara húsnæðis og leigjendur í ódýrari hverfum þyrftu ekki að greiða niður leigu leigjenda í dýrari hverfum. Einnig voru færð rök fyrir því að áskilnaðurinn takmarkaði áhættu almennra íbúðafélaga því að afmarkaðir áfangar kæmu ekki félögunum í heild í koll. Áskilnaðurinn sætti talsverðri gagnrýni. Bent var á að leiga fyrir nýjar íbúðir gæti orðið mjög há ef eigendum íbúðanna væri ókleift að nýta leigu af eldri og skuldlausum íbúðum til að styðja við afborganir af lánum á nýjum íbúðum. Það væri einnig visst réttlætismál að leigjendur greiddu sambærilega leigu fyrir sambærilegar íbúðir. Þá var bent á að jöfnun leiguverðs milli hverfa væri liður í félagslegri blöndun. Ef eigendum almennra íbúða væri óheimilt að nýta leigu af íbúðum í ódýrari hverfum til að styðja við leigu í dýrari hverfum væri hætt við því að leiga í dýrari hverfum yrði of há fyrir tekjulága leigjendur. Eigendur gætu þannig neyðst til að hafa íbúðir aðeins í ódýrari hverfum. Með því væri unnið gegn félagslegri blöndun. Nefndin telur ekki hafa komið fram að jöfnun leiguverðs milli almennra íbúða í eigu sama aðila feli í sér hættu á verulegum sveiflum í leiguverði. Nefndin telur hana jafnvel geta dregið úr verðsveiflum, enda væri þá hægt að mæta sveiflum í kostnaði af sumum íbúðum með leigutekjum af öðrum. Nefndin fær heldur ekki séð að áfangaskipt leiga takmarki áhættu eigenda íbúðanna, enda hnikar hún ekki ábyrgð þeirra á íbúðum í sinni eigu og lánum sem á þeim hvíla. Nefndin fellst aftur á móti á fram komna gagnrýni á áskilnaðinn.

Nefndin leggur því til að ákvæði um áfangaáskilnað verði fellt brott og ákvörðun leigu verði sveigjanlegri.

Ég sé að tími minn er á þrotum, ég get ekki farið dýpra í málið en ég veit að fleiri þingmenn eru á mælendaskrá sem munu e.t.v. fjalla um fleiri atriði í þessu viðamikla frumvarpi. Mig langar að gera líkt og félagar mínir í velferðarnefnd hafa þegar gert, að þakka fyrir einkar gott samstarf. Það er engin helgislepja á þessum góða degi, síður en svo, það er sannleikanum samkvæmt. Við höfum öll sem eitt lagt okkar af mörkum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það skipti engu máli í vinnu okkar og ég get alveg talað fyrir okkur öll. Við vorum einhuga við að leita lausna og við reyndum að finna málamiðlanir. (Forseti hringir.) Við erum sammála um að við höfum í höndunum sterkt frumvarp sem ég vona að við getum klárað í þinglegri meðferð sem fyrst (Forseti hringir.) í þeim tilgangi að bæta húsnæðismarkaðinn á Íslandi. Það er svo sannarlega kominn tími til þess.