145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

stefna stjórnvalda í raforkusölu.

[13:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um stefnu stjórnvalda í raforkusölu. Forsvarsmenn Landsvirkjunar fögnuðu því nýverið að hafa náð almennilegum samningi við Norðurál en þeir sjá fram á að hinn nýi samningur muni skila mikilli tekjuaukningu fyrir Landsvirkjun og þá væntanlega til þjóðarbúsins. Norðurál hefur allt of lengi náð að halda meðalverði á raforku niðri en samkvæmt greiningum Péturs Sigurjónssonar, sérfræðings í orkumálum, greiðir Norðurál lægsta raforkuverðið til Landsvirkjunar. Lágt verð til Norðuráls á Grundartanga og Fjarðaáls á Reyðarfirði hefur dregið niður meðalverð á raforku til álvera hér á landi, niður í rúmlega 26 dollara á megavattsstund. Nýi samningurinn tekur því miður ekki gildi fyrr en í nóvember 2019 en þangað til gildir gamli útsölusamningurinn. Það er vert að halda því til haga að Norðurál beitti öllum meðölum til að halda til streitu útsöluverði á orkusölu til sín.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi látið kanna hve miklum tekjum þjóðarbúið hefur orðið af vegna þessarar útsölustefnu á orkuverði og hvort hann boði stefnubreytingu þar á.

Það er í raun og sann dapurlegt að horfa upp á að póstnýlendustefna er enn við lýði þegar kemur að því að halda sjálfsvirðingu okkar og gæta hagsmuna komandi kynslóða. Í stað þess að selja orkuna okkar á besta mögulega verði er enn unnið að því að selja hana á útsöluverði til erlendra stórfyrirtækja. Samkvæmt fréttum frá árinu 2012 kemur fram að Landsvirkjun hyggist laða til sín gagnaver með sambærilega stefnu um lágt verð á orku. Þó er verðið sem boðið er upp á gagnvart þeim um 46 dollarar á megavattsstund.

Nú lifum við á þannig tímum að fyrirtæki, þar með talin gagnaver, vilja gjarnan greiða meira fyrir græna orku og því finnst mér það sérkennilegt að hér er enn rekin stefna um útsöluorkuverð. Það er svo margt annað sem laðar til dæmis gagnaver til landsins en ódýr græn orka. Jafnhitastig er meðal annars eitthvað sem litið er til og Ísland talið eitt af bestu löndunum þegar kemur að því að hafa nánast sama hitastigið allt árið um kring miðað við lönd sem við berum okkur gjarnan saman við.