145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

strandveiðar.

[13:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er gott að heyra að hæstv. ráðherra ætlar að taka þetta til endurskoðunar. Ég held að það sé alveg tímabært, miðað við þá reynslu sem komin er af kerfinu, að sníða þá vankanta af því sem vissulega hafa komið fram. Rannsóknir og skýrslur hafa sýnt að strandveiðar hafa verið að styrkja byggðafestu í þorpum og sjávarbyggðum vítt og breitt um landið. Þó að menn geti alltaf deilt um hverjir séu atvinnumenn og hverjir ekki ríkir atvinnufrelsi í landi og við viljum ekki ganga gegn stjórnarskrá í þeim efnum. Fyrst og fremst á þetta að vera fyrir þá sem hafa búsetu í sjávarbyggðunum og styrkja atvinnu á því svæði og efla möguleika á að komast inn í fiskveiðistjórnarkerfið. Ég legg mikla áherslu á að skoða þennan sveigjanleika með því að festa daga sem mætir helstu sjónarmiðum, bæði þeim að það er mismunandi veiði á svæðum eftir því á hvaða tíma sumarsins, vorsins eða haustsins það er. Þetta mundi mæta það mörgum sjónarmiðum að menn færu ekki út í öllum veðrum og gætu þá nýtt heimildina innan mánaðarins, fasta daga, hvort sem það væru tíu eða fleiri.