145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:13]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp um almennar íbúðir. Um er að ræða mikla uppbyggingu á leigumarkaði, uppbyggingu á 2.300 leiguíbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Um er að ræða eina þá mestu uppbyggingu sem orðið hefur á leigumarkaði til áratuga. Ánægjulegt er að í þeim breytingartillögum sem við greiðum nú atkvæði um er m.a. litið til byggðasjónarmiði við veitingu stofnframlaga og heimild sett inn í lögin til að veita viðbótarstofnframlag frá ríki og sveitarfélögum til svæða þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki og/eða sérstök vandkvæði á að fá fjármögnun á almennum markaði. Auk þess er sett inn heimild fyrir sveitarfélög og t.d. fyrirtæki á svæðum til að taka höndum saman um uppbyggingu á leiguhúsnæði. Allt eru þetta mikilvæg og stór skref.

Öll hv. velferðarnefnd stendur saman að öllum þeim breytingartillögum sem hér um ræðir og nefndaráliti. Ég hvet hv. þingmenn til að samþykkja allar breytingartillögur sem hér um ræðir.