145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil gera málefni útlendinga að umtalsefni í þessum dagskrárlið í dag. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar er það vegna þess að málefni útlendinga eru á dagskrá þingsins þessa dagana, ný útlendingalög eru til að mynda til umfjöllunar í þingnefnd. Hins vegar er það vegna þess að enn og aftur lesum við í fjölmiðlum um fjölskyldu sem send er úr landi vegna þess að hún fær ekki hæli hér. Nú er um að ræða Dega-fjölskylduna sem kom hingað frá Albaníu í fyrra. Reyndin er sú að einstaka mál vekja athygli í fjölmiðlum og kalla á viðbrögð þar sem gengið er í það að reyna að bjarga fólki um að fá að vera hérna áfram án þess þó að tekið sé á hinum kerfislæga grunni sem gerir það að verkum að fólki er vísað í burtu.

Ísland er í raun lokað land fyrir þá útlendinga sem koma hingað frá löndum utan hins Evrópska efnahagssvæðis þrátt fyrir það t.d. að hér vanti fólk til starfa. Á þessu eru þó tvær undantekningar og það er þegar um er að ræða sérhæfða starfsmenn og íþróttafólk og svo útlendinga sem koma hingað til starfa tímabundið í gegnum starfsmannaleigur og hafa oft mjög takmörkuð réttindi hér á landi.

Að óbreyttu munu ný útlendingalög ekki breyta öllu fyrir fólk í sömu stöðu og Dega-fjölskyldan, en ef saga þessarar fjölskyldu og annarra sem hefur verið vísað frá Íslandi hefur snert við okkur (Forseti hringir.) vil ég minna á að núna er einmitt lag til þess að gera breytingar á útlendingalögunum svo að hingað geti fleiri komið og fengið að dvelja í okkar ágæta landi.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna