145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

rannsókn á mánaðartekjum háskólanema.

744. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Auðvitað er það jákvætt að safna frekari gögnum. En ég held að engum hér inni ætti að dyljast að staðan er orðin býsna þung fyrir ungu kynslóðina í dag. Við sjáum það á tölum Hagstofunnar og það þarf svo sem engan sérstakan geimvísindamann til að sjá hvað það er sem þar telur. Það eru auðvitað húsnæðismálin sem eru mjög þung fyrir ungt fólk, þ.e. að komast ýmist inn á séreignarmarkað eða vera á mjög erfiðum leigumarkaði. Það er sú staðreynd að barnabætur hafa farið niður á við og það er stórt mál fyrir ungt fólk. Það er þung staða í fæðingarorlofsmálum sem bitnar líka á ungu fólki.

Síðan er það málaflokkur hæstv. ráðherra sem lýtur að námslánum eða námsstyrkjum. Þar erum við að horfa upp á, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar, að mánaðartekjur háskólanema eru þriðjungi lægri en þær voru árið 2004. Þá er ekki eingöngu átt við lánin því að við vitum líka að langflestir af þeim nemendum eru að reyna að afla sér tekna með einhverjum öðrum hætti, sem er ekki endilega æskilegt ástand, þ.e. að nemendur séu að vinna jafn mikið með námi og raun ber vitni. Við sjáum það líka á þeim vísbendingum sem hér eru um skuldsetningu ungs fólks.

Allt skiptir þetta máli; fæðingarorlofið, húsnæðisbæturnar, barnabæturnar og svo námslánin eða námsstyrkirnir sem ættu að vera. Eins og ég sagði er jákvætt að safna gögnum en við höfum vissulega gögn um hvað þær þjóðir sem við berum okkur saman við annars staðar á Norðurlöndum verja í alla þessa málaflokka. Þar kemur Ísland síður út en Norðurlöndin þegar við horfum á hvernig þetta velferðarkerfi er byggt upp.

Hvað varðar spurningu mína er ég auðvitað spennt að sjá frumvarp hæstv. ráðherra um, vonandi, endurbætur á Lánasjóði íslenskra námsmanna.

En ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðherra: Miðað við (Forseti hringir.) útgefin viðmið stjórnvalda á því hvað það kostar að framfleyta sér þá sjáum við (Forseti hringir.) að framfærsla sem námsmönnum er boðin er langt undir þeirri framfærslu sem stjórnvöld hafa viðurkennt (Forseti hringir.) að þurfi til að framfleyta sér. Þarf ekki að fara í þetta mál og hækka framfærsluna, herra forseti?