145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir mjög góðar umræður. Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra hafi hug á að endurskoða lög um fjölmiðla og væntanlega endurskilgreina eða styrkja fjölmiðlanefnd samkvæmt tillögum frá ÖSE.

Mig langar aðeins í ljósi umræðunnar að benda á að þótt allir geti sett upp veftímarit krefst það mikillar fagþekkingar að vera góður rannsóknarblaðamaður. Það getur ekki hver sem er verið góður rannsóknarblaðamaður, svo að því sé haldið til haga, og mikilsvert að við styðjum ítarlega og djúpa rannsóknarvinnu á flóknum málum, eins og t.d. á Panama-skjölunum svokölluðu.

Mig langar að ítreka að þótt við séum nýlega búin að setja lög þá er þetta kvikur og síbreytilegur veruleiki sem lýtur að fjölmiðlum. Það verða mjög örar breytingar og margir fjölmiðlar í ákveðinni tilvistarkreppu af því að erfiðara er að fá auglýsingar á netmiðlum og mikil þróun í gangi þar.

Mig langar að taka undir það sem hefur komið fram. Allir þeir þingmenn sem hafa hlustað á mig tala um stöðu RÚV vita að ég er hollvinur RÚV en ég tel mjög brýnt að festa og tryggja fjármagn, að nefskatturinn renni allur til RÚV, og að við förum í þá vegferð að taka RÚV af auglýsingamarkaði. En til þess að það sé hægt verður það að vera þannig að ekki sé hægt að skerða fjárveitinguna til RÚV undir neinum kringumstæðum, ekki samkvæmt duttlungum þeirra sem fara með fjárveitingavaldið. Það þarf að tryggja sem og rekstrargrundvöll þannig að RÚV geti staðið við skuldbindingar sínar.