145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[16:12]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga gerir ráð fyrir því að ef ráðherra víkur frá niðurstöðu hæfnisnefndar við skipan dómara nægi honum ekki að koma til Alþingis og fá einfaldan meiri hluta til staðfestingar þeirri ákvörðun heldur þurfi aukinn meiri hluta í þingsal, 2/3 hluta, til þess að staðfesta frávik frá niðurstöðu hæfnisnefndar. Þetta teljum við í stjórnarandstöðunni mikilvægt atriði því að allir vita að ráðherrar hafa meiri hluta í þingi. Þar af leiðandi væri það nokkurs konar málamyndagjörningur að gera ráð fyrir samþykki þingsins með einföldum meiri hluta. Við teljum að það þurfi að liggja svo augljósar réttlætisástæður og sanngirnisástæður fyrir því að víkja frá dómi hæfnisnefndar að það sé meginþorra, auknum meiri hluta þingmanna, ljóst og krefjist þar af leiðandi atkvæðamagns 2/3. Þetta er mikilvæg breyting sem ég efast að vísu (Forseti hringir.) um að verði samþykkt og ég harma það.