145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[14:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu. Í samgöngum og ökutækjaframleiðslu er gríðarleg þróun um þessar mundir og hefur verið í nokkur ár. Þess vegna er bæði rétt og skylt að fara yfir þær reglur sem ríkið setur þegnum sínum um gjöld af ökutækjum. Þróunin sem orðið hefur í orkusparandi bensínvélum er til dæmis mjög athyglisverð. Það þótti gott í gamla daga þegar 100 hestöfl náðust út úr einum lítra sprengirýmis en sú tala er löngu sprungin og menn ná núna miklu fleiri hestöflum út úr einum lítra á sprengihreyfli bensínbíla.

Dísilbílavæðingin, sem hefur bæði verið hér og í Evrópu, er að mörgu leyti ofmat vegna þess að sótið sem fylgir útblæstrinum þar er stórhættulegt. Staðreyndin er sú að í borgarumferð má segja að þeir sem gangandi eru eða hjólandi séu útsettir fyrir sóti sem er svo fínt að það sest neðst ofan í lungu fólks og veldur þar stórskaða. Við þurfum því að horfa til ýmissa hluta þegar við erum að tala um gjaldtöku af ökutækjum, en að sjálfsögðu eigum við fyrst og fremst að horfa til einföldunar og við eigum að horfa til þess að hér á landi þar sem er nóg til af rafmagni eigum við náttúrlega að beina kaupum og endurnýjun á bílaflotanum í rafmagns- og tvinnbíla og spara líka með því gjaldeyri í innflutningi á eldsneyti. Að auki er til vansa að almenningssamgöngur skuli ekki nota rafmagn og metan meira en gert er í dag.

Það sem við þurfum að gera er að einfalda þetta kerfi og beina gjaldtökunni þannig að rafmagnsbílar og orkusparandi bílar beri minni gjöld en aðrir.