145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[17:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er ánægjulegt að þetta frumvarp um þjóðaröryggisráð hafi verið lagt fram. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hér á undan starfaði nefnd undir stjórn Vals Ingimundarsonar sem lagði beinlínis til að stofnað yrði þjóðaröryggisráð. Í þingmannanefndinni sem ég hafði þann heiður að stýra ræddum við mikið um þjóðaröryggisráð af einhverju tagi. Við lögðum ekki beinlínis til að það yrði sett á laggirnar, en það væri vissulega vert að hugsa til þess að gera það.

Ein ástæða fyrir því að mér þótti það mikils um vert er einmitt það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á áðan, að við skilgreinum þjóðaröryggishugtakið mjög vítt. Það var gert í vinnu þingmannanefndarinnar, skilgreint miklu víðara en áður hafði verið gert. Þá urðum við mjög vör við það í þeirri vinnu sem við fórum í gegnum hvað ráðuneytin starfa mikið í turnum, sílóum. Sívali turninn, var það ekki notað einhvern tímann? Það þyrfti að ná tengingu þar á milli og þess vegna virtist alveg liggja ljóst fyrir að það gæti verið hentugt að hafa eitthvert ráð sem hittist reglulega og menn lærðu að vinna saman þvert á ráðuneyti.

Ég tek eftir því í skýringum með frumvarpinu að þar er sagt frá því hvernig þessum málum er háttað í öðrum ríkjum. Ég ætla sérstaklega að taka dæmi um Svíþjóð. Í kaflanum stendur, með leyfi forseta:

„Nokkrar stofnanir í Svíþjóð sinna þeim málum sem þjóðaröryggisráðinu er ætlað að sinna.“

Það held ég að sé einmitt vegna þess að í Svíþjóð er mjög horft til þessarar breiðu skilgreiningar á þjóðaröryggi en ekki þeirrar skilgreiningar sem við erum svo vön og birtist fyrst og fremst í varnar- og öryggismálum sem tengd eru hernaðarlegri ógn eða hryðjuverkaógn frekar en einhverri annarri ógn sem gæti steðjað að samfélaginu.

Það kemur náttúrlega líka fram í þessum kafla að í flestum öðrum löndum þar sem svona ráð eru til eru það fyrst og fremst forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og varnarmálaráðuneyti sem koma að þeim, eins og í Bretlandi. Í þessum löndum er miklu meira horft til hernaðarlegra ógna eða hryðjuverkaógna en við gerðum, tel ég, í stefnunni um þjóðaröryggi. Það kom líka fram í þeim umræðum og þegar við vorum að kynna okkur hvernig þjóðaröryggisráð störfuðu að það skipti mjög miklu máli að haldnir væru reglulegir fundir í ráðum af þessu tagi, hvort sem það væri hálfsmánaðarlega eða vikulega eða einu sinni í mánuði. Það væri lykilatriði að þetta væri eitt af rútínuverkefnum þeirra sem sætu í ráðinu, það væri ekki þannig að ráðið yrði einungis kallað saman þegar einhver ógn steðjaði að. Ég vil koma þeirri áherslu á framfæri.

Það var rétt sem kom fram hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur áðan og ég rak einnig augun í það, að í þjóðaröryggisráðinu eiga að sitja forsætisráðherra, ráðherra sem fer með utanríkis- og varnarmál og ráðherra sem fer með almannavarnir, auk ráðuneytisstjóra þeirra, og svo ríkislögreglustjóri og forstjóri Landhelgisgæslunnar. Svo er sagt að það megi kalla aðra til og síðan er í 9. gr. sagt að það eigi að vera samráð við almannavarna- og öryggismálaráð.

Ég skil alveg þá hugsun að það sé ekki gott að vera með of stórt ráð þannig að menn reyna kannski í frumvarpsgerð af þessu tagi að gera ráðið í upphafi ekki of stórt en þá ber líka að hugsa til þess, eins og þjóðaröryggi er skilgreint hérna, og tek undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, að mér finnst þetta vera ansi mikið í átt að gamalli hugsun um það hvernig þjóðaröryggi er skilgreint.

Ég vil nefna það, einmitt vegna þess að ríkislögreglustjóri og forstjóri Landhelgisgæslunnar eiga sæti í þessu ráði, að ég var oft hugsi yfir því í vinnu þingmannanefndarinnar, og mér finnst það skipta miklu máli, að þegar þessar stofnanir okkar, lögreglan og ekki síst Landhelgisgæslan, eiga í erlendu samstarfi eða erlendu samráði er það langoftast við heri. Ef það verður t.d. slys einhvers staðar við Grænland og Landhelgisgæslan kemur að og við eigum að hjálpa til eða eitthvað svoleiðis eru það herir sem koma frá öðrum löndum. Þannig er það. Þess vegna er gífurlega mikilvægt, finnst mér, að þessar stofnanir okkar, Landhelgisgæslan og ríkislögreglustjóri, gleymi því aldrei að þær eru borgaralegar stofnanir. Mér finnst það gífurlega mikilsvert að menn gleymi því aldrei. Starfsmenn þessara stofnana og þeir sem fara í verkefni af þessu tagi mega aldrei gleyma því að þeir starfa fyrir borgaralegar stofnanir. Það er gífurlega mikill munur þar á.

Ég veit ekki hvernig menn finna best út úr því eða gera það best en þetta finnst mér þurfa að innprenta þeim sem koma að störfum á þessu sviði.

Annars hef ég ekki miklu meira um þetta að segja. Mér finnst merkilegt að frumvarpið skuli komið fram og vil hrósa ráðherranum fyrir snögg handtök, en ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur áðan, mér finnst þurfa að hugsa það hvort ekki sé hægt í uppbyggingunni á öryggisráðinu að huga meira að því hvernig þingmannanefndin ályktaði og hvernig það endaði svo og því sem kemur fram í nefndaráliti utanríkismálanefndar um þjóðaröryggisstefnu, að við viljum leggja áherslu á hina breiðu skilgreiningu á þjóðaröryggi. Það væri vissulega, held ég, til bóta og gott ef það væri hægt að flytja þá hugsun inn í þetta þjóðaröryggisráð.