145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

ákvörðun kjördags.

[14:02]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður sýnir kunnáttu sína í almanakinu. Ég get fullvissað hann um að aðrir þingmenn í þessum sal kunna það líka.

Það er auðvitað þannig, svo ég svari spurningunni aftur, að Framsóknarmenn hræðast ekki kosningar. Eftir það sem við höfum afrekað á kjörtímabilinu þorum við auðvitað að leggja þau verk okkar í dóm kjósenda. Svo það er rangt hjá hv. þingmanni.

Varðandi málatilbúninginn og spurningarnar, ef við tökum þær beint, þá er ég sammála þingmanninum að þetta þarf að liggja fyrir með góðum fyrirvara til að menn geti undirbúið sig. En við erum nú stödd í lok maí enn þá og það er langt til kosninga. En það er rétt. Það þarf að liggja fyrir með nægilega góðum fyrirvara til þess að lýðræðisöfl í landinu geti undirbúið sig og til þess að tryggt sé að allir geti kosið sem það vilja.