145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

Félagsmálaskóli alþýðu.

[14:06]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég er ekki sammála því að rétt sé að loka Félagsmálaskóla alþýðu. Við höfum einmitt lagt aukna fjármuni í ýmiss konar samstarf sem snýr að aðilum vinnumarkaðarins. Við höfum m.a. kostað undirbúning að miklum fundum sem snúa að SALEK-samkomulaginu og sett ákveðna fjármuni í innleiðingu á vinnumarkaðsstefnunni. Ég hef lagt mikla áherslu á það í samtölum við aðila vinnumarkaðarins að þegar við gerum breytingar skuli gera þær í góðu samtali og samráði við þá. Það hefur ekki alltaf gengið eftir, ekki heldur í ráðherratíð minni. Ég held hins vegar að ef á að gera þessar breytingar þurfi að gera þær í samráði við viðkomandi.