145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er til ákveðins tjóns fyrir umræðuna almennt að við höfum upplýsingar um það mat ríkisskattstjóra að umfang skattsvika á Íslandi geti legið í kringum 80 milljarða. Auðvitað er það á endanum gróf ágiskun en hún er byggð á þekkingu innan úr kerfinu. Verkefnið sem ég vísa til að við viljum setja af stað er að meta það að hve miklu marki þetta kann að stafa frá aflandssvæðum, að hve miklu leyti þau kunna að eiga hlut í þeim skattsvikum sem þarna eru undir. En ég vísaði til þess að ég tel allar líkur til þess að hér fyrr á tíð hafi verið miklu meira umfang í þessu efni en við þekkjum í dag. Ég vísa til dæmis til þess að fjármálafyrirtækin hafa nýlega gefið Fjármálaeftirlitinu svör um að þau hafi ekki veitt neina ráðgjöf af þessum toga í mörg ár.

Um hitt atriðið get ég í sjálfu sér ekki annað sagt (Forseti hringir.) en að sérfræðingar úr ráðuneytinu, stjórnkerfinu, hafa haft reglur um þunna eiginfjármögnun til skoðunar. Það er tæknilega flókið mál sem áfram verður unnið að.