145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að bíða eftir einhverjum erlendum fræðimönnum í þeim efnum. Hún ætti bara að leggja við hlustir þegar ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tjáum okkur um þessi efni. Við höfum haft mjög skýrar skoðanir á þessu. En staðreyndin er auðvitað sú að fyrir okkur sem höfum lengi tekið þátt í þessari umræðu, að þeir hlutir sem við erum að tala um núna og liggja hér á borðinu eins og sjálfsagðir hlutir, voru næstum því tabú í þessum þingsölum fyrir svona 15 árum eiginlega hvarvetna. Það þótti alveg með eindæmum hallærislegt þegar stjórnmálamenn frá Íslandi eða annars staðar reifuðu þessi mál erlendis. Þessum málum hefur fleygt fram innan OECD, ég mundi segja síðasta einn og hálfa áratuginn. Sérstaklega á seinni árum. Og muni ég rétt var það nú ekki fyrr en Bandaríkjamenn fóru að sveifla flaggi í þessum efnum sem menn lögðu virkilega við hlustir.

En það mega íslensk stjórnvöld eiga síðustu árin, líka þessi ríkisstjórn, að menn hafa einfaldlega synt með þessum straumi en ekki gegn honum, sem íslenskar ríkisstjórnir gerðu þó stundum. Þeim fannst þetta ekkert sérlega sniðugt. Ég held því að við séum komin á gott spor í þessum efnum. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er gott svo langt sem það nær. Í sumum efnum, eins og t.d. varðandi þetta efni, þá gengur það ekki nógu langt. Ég er þeirrar skoðunar að eftir yfirlýsingu ESA á dögunum sé búið að hrinda burt einu röksemdinni gegn því að taka upp svona bann. Ég sé ekkert að því að banna mönnum að eiga viðskipti þar sem vitað er að boðið er upp á aðstoð við lögbrot af þessu tagi. Við höfum nýlega séð eitt tiltekið dæmi um það hvernig menn höfðu bersýnilega skotið til hliðar umboðslaunum áratugum saman og geymt í skattaskjólum og aldrei borgað eina krónu af því. Eitt tilvik. Ja, hvað ætli þau séu mörg? Vísa ég nú enn og aftur til orða varaformanns fjárlaganefndar sem heldur því fram að sett hafi verið á stofn 12 þúsund slík félög. (Forseti hringir.) Ætli inni í 80 milljörðunum hæstv. fjármálaráðherra sé búið að reikna umboðslaunin öll sem búið er að stela frá skatti áratugum saman? Ég hugsa ekki.