145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er því algjörlega andsnúinn að við höldum áfram að ræða þetta mál fyrr en hæstv. menntamálaráðherra er kominn hér til fundar. Hann verður að standa fyrir sínu máli. Hann verður í fyrsta lagi að skýra það út hvernig stendur á því að samkomulagið er gert 13. apríl, síðan er liðinn einn og hálfur mánuður, og svo kemur hann til þingsins og pínir allsherjar- og menntamálanefnd til þess að leggja fram frumvarp á þeim forsendum að það sé enginn tími eftir. Það er ekki hægt að fallast á svona vinnubrögð. Það er fullkomlega óásættanlegt.

Í öðru lagi þarf hann líka að skýra það út fyrir þinginu hvernig á því stendur að hann hefur ekki staðið við það sem hann lýsti yfir við umræður um nákvæmlega sama hlut fyrir sléttu ári síðan, að hann væri með í burðarliðnum frumvarp sem væri nánast fullburða og yrði lagt fram innan tiltekins tíma um heildarskipan tónlistarmála í landinu. Það bólar ekkert á því. Í staðinn kemur þetta og svona vinnubrögð er ekki hægt að þola. Ég geri það a.m.k. að minni kröfu að þessari umræðu verði frestað (Forseti hringir.) þangað til hæstv. ráðherra er annaðhvort sóttur til Færeyja ellegar þetta mál látið niður falla.