145. löggjafarþing — 123. fundur,  2. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[00:29]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur kærlega fyrir ræðu hennar og áhuga á málinu. Ég tek algjörlega undir tillöguna um breytingar varðandi lið B.7 og mikilvægi þess að orða þetta með betri hætti þannig að það komi skýrar fram hvað við eigum við. Það tengist líka skýrslunni og hverju menn eru að huga að þar. Það á að vera fullt samræmi þar á milli. Það sem sérfræðingar og þeir sem unnu áætlunina fyrir mig hafa sérstaklega verið að skoða er að hlutfall þeirra kvenna sem hafa leitað til Kvennaathvarfsins sem eru af erlendum uppruna er langt umfram það sem er hlutfallið af þjóðinni. Eins og ég talaði um eru innflytjendur af fyrstu og annarri kynslóð 10% hér á landi, en af þeim konum sem leituðu til athvarfsins, og þar af leiðandi með sín börn, voru 35% af erlendum uppruna og 32% þeirra kvenna sem dvöldu í athvarfinu. Þær komu frá fjölmörgum löndum. Þar er líka vísað til átaks sem var efnt til á Suðurnesjunum, höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi vegna heimilisofbeldis.

Ég vil hins vegar þakka fyrir þær ábendingar sem komu fram í ræðu þingmannsins. Það sem ég vildi líka nefna sérstaklega er að ég tek undir með henni um mikilvægi þess sem snýr að vinnumarkaðnum. Við göngum kannski oft að því sem sjálfsögðum hlut hvað það er mikið og náið samstarf milli stjórnvalda, opinberra stofnana og aðila vinnumarkaðarins þegar kemur að því að tryggja að farið sé að lögum og reglum á íslenskum vinnumarkaði. Það samstarf er hins vegar að mínu mati ómetanlegt. Það eru þeir sem (Forseti hringir.) vinna að því og tryggja að ekki sé verið að misbjóða fólki á vinnumarkaðnum og (Forseti hringir.) við þurfum að styðja áfram við það samstarf.