145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

málefni hælisleitenda.

[10:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að trúa því eftir bestu getu að starfsfólki Útlendingastofnunar gangi gott eitt til. Ég reyni eins og ég get að trúa því áfram. Hins vegar get ég ekki orða bundist lengur yfir því að lögin bjóða upp á túlkunaratriði. Það eru hlutir í gildandi lögum, eins og sanngirnisástæður og því um líkt. Það virðist gerast aftur og aftur að heimildir í lögum til þess að líta til sanngirnissjónarmiða, ríkra eða ekki, eru ekki notaðar til þess að leyfa fólki t.d. að vera í landinu á meðan umsókn þess er til meðferðar. Það gerist trekk í trekk.

Sömuleiðis þarf maður á einhverjum tímapunkti að horfast í augu við að það er ekki alltaf einföld, bein túlkun á lögum sem eru til staðar. Það er líka viðhorf kerfisins. Alls staðar er kallað eftir pólitískri leiðsögn í þessum málum. (Forseti hringir.) Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að hún komi fram og sé ekki spurning um hvort við ætlum að opna landið upp á gátt eða loka því algjörlega, heldur (Forseti hringir.) einfaldlega að sýna sanngirni.