145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

málefni hælisleitenda.

[10:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Það er enginn vafi á því að í þessum málaflokki eins og öllum öðrum skiptir pólitísk leiðsögn máli, en hún verður að vera á grundvelli laga. Það er ekki þannig í þessum málaflokki frekar en öðrum, og við getum yfirfært það á hvaða málaflokk sem við viljum, að pólitísk sjónarmið eigi að ganga yfir lög. Ég held að það yrði töluvert mikil breyting á ef menn mundu telja það í þessum sal. Það tel ég ekki vera og þá afstöðu verður aldrei hægt að fá fram hjá mér.

Ég held að það sé líka þannig, og ég held að ég hafi sagt það margoft í þessum sal, að ekki er búið að botna neina umræðu þegar kemur að þessum málaflokki. Við eigum eftir að sjá það á næstu mánuðum, missirum og árum að við munum oftar þurfa að opna lög um útlendinga, við þurfum oftar að breyta reglunum, við þurfum oftar að skerpa á því hvernig stefnan er lögð í lögum þannig að það sé auðveldara fyrir þær stofnanir sem um þessi mál fjalla að vinna vinnuna sína þannig (Forseti hringir.) að menn geti treyst því að þar séu menn að vinna af heilindum, af því að þannig er það.