145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í þessa umræðu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Ég ætla helst að skoða nokkra þætti sem lúta að velferðarmálum.

Hér hafa á undan mér talað fjórar hv. þingkonur Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata. Þrjár þeirra mynda minni hluta í fjárlaganefnd og skila alltaf af sér frábærri vinnu. Það vildi ég, frú forseti, að þær væru í meiri hluta svo þessi áætlun liti öðruvísi út.

Fyrst langar mig aðeins að lýsa yfir miklum áhyggjum af þróun barnabóta. Þegar hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar sem og fulltrúi okkar í fjárlaganefnd, Oddný G. Harðardóttir, var fjármálaráðherra þá hækkaði hún barnabætur fyrir fjárlagaárið 2013, enda voru þær orðnar allt of lágar. Þessi ríkisstjórn hefur því miður unnið að skerðingu barnabóta og hefur meira að segja lýst því yfir að markmiðið sé að bæturnar nái eingöngu til tekjulægstu heimilanna. Ég er búin að sitja í þingsal með tölvuna mína og skoða barnabætur annars staðar á Norðurlöndunum, í Danmörku og Svíþjóð. Ég tek dæmi af íslenskri meðaltekjufjölskyldu með milljón á mánuði, hjón með milljón á mánuði samanlagt í laun. Þau eiga börn sem eru 1 og 3 ára, 13 og 15 ára, þetta er sem sagt fjögurra barna fjölskylda og þær eru allnokkrar á Íslandi. Þessi hjón fá á mánuði í barnabætur 14 þús. kr. Byggju þau í Danmörku eða Svíþjóð fengju þau á mánuði 81 þús. kr. Þarna munar 67 þús. kr. á mánuði. Yfir árið gera þetta 804 þús. kr. sem þessi fjölskylda hefur minna í ráðstöfunartekjur til að framfleyta börnunum sínum. Þarna erum við í Samfylkingunni einmitt að benda á að þetta norræna kerfi, að það séu ótekjutengdar barnabætur, það jafnar aðstöðu fjölskyldna innan sömu tekjubila óháð því hvort það eru þar börn á framfæri eða ekki. Önnur hjón á Íslandi sem eru með milljón á mánuði og eiga engin börn fá auðvitað engar barnabætur, en þessi fjölskylda á Íslandi með fjögur börn fær bara í skattafslátt, ef svo má segja, 14 þús. kr. á mánuði til að bæta upp þyngri framfærslu. Það sjá allir að það er algjörlega óraunhæft að það dugi til þess að jafna innan tekjubils eftir ólíkri framfærslu. Þetta er sláandi munur. Við í Samfylkingunni munum sannarlega hækka barnabæturnar og snúa við þeim áformum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að gera þær að algjörum fátæktarbótum.

Þá komum við inn í húsnæðismálin. Þar ætla ég að lýsa yfir áhyggjum. Við náðum að klára í mikilli sátt frumvarp um almennar leiguíbúðir og nýtt húsnæðisbótakerfi í stað húsaleigubótakerfisins. Áætlunin var um 2.300 íbúðir á fimm árum. Fyrir það fyrsta er það of lítið. Þegar búið var að uppfæra stofnkostnaðartölur fyrir húsnæði voru allar líkur á að þetta næði ekki að verða nema í mesta lagi um 1.500 íbúðir á fimm ára tímabili, en þær þyrftu að vera a.m.k. 5 þús. á þessu tímabili eða jafnvel mun fleiri ef tekið er mið af mati ASÍ á þörfinni fyrir íbúðir. Það þarf því að auka verulega í stofnframlögin svo hægt sé að byggja fleiri leiguíbúðir sem fyrst og fremst gagnast þeim sem eru með lægri tekjur og ungu fólki.

Þá komum við að almannatryggingakerfinu. Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ekki tekist að breyta því á kjörtímabilinu þrátt fyrir að það hafi legið fyrir fullbúið frumvarp þegar hún gekk inn í ráðuneytið en hún hóf vinnuna að nýju, hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir, og er nú búin að skila svipuðu frumvarpi sem á að auka útgjöld til almannatrygginga um allt að 33 milljarða á næstu 10 árum og 5 milljarða á næsta ári. Þessarar aukningar sér því miður ekki stað í ríkisfjármálaáætlun og þetta boðaða frumvarp hennar er því væntanlega skot í loftið ef við ætlum að taka mark á áætluninni. Auðvitað væri æskilegt að það væri mark á henni takandi en miðað við innihaldið er kannski ágætt að hún eigi ekki eftir að ná fram að ganga.

Svo komum við að heilbrigðisþjónustunni. Það er það síðasta sem ég ætla að ræða varðandi þessa áætlun. Ég vil byrja á að segja að nú í vor samþykkti Alþingi samhljóða frumvarp um greiðsluþátttöku sjúklinga, frumvarp sem hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson lagði fram og sátt náðist um, en við í minni hlutanum lögðum ríka áherslu á að við gætum ekki samþykkt það nema með auknum fjárveitingum. Við fengum hæstv. heilbrigðisráðherra á fund nefndarinnar áður en við afgreiddum út málið. Hann hafði haft samráð við hæstv. fjármálaráðherra og við samþykktum frumvarpið og settum í nefndarálit það sem okkur fór á milli, að það væri 300–400 millj. kr. fjárveiting inn í heilsugæsluna þegar á þessu ári en síðan að þakið yrði ekki hærra en 50 þús. kr. á ári fyrir greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Það hafði átt að verða 95 þús. kr. fyrir almenna sjúklinga, en fyrir harðfylgni okkar í minni hlutanum náðum við því niður í 50 þús. Vil ég líka nota tækifærið og lofa framsögumann málsins, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, sem stóð sig einstaklega vel í því að leiða þetta mál til lykta. En það er ekki búið að gera neina breytingartillögu út af þessari lækkun á þakinu. Það harma ég.

Talandi um greiðsluþátttöku þá er greiðsluþátttaka almennings á Íslandi 35 milljarðar, sem heimilin draga upp úr vasanum og leggja á borðið til þess að borga fyrir heilbrigðisþjónustu og hjálpartæki. Þá er ekki tekinn hér inn ferðakostnaður. Þetta eru 35 milljarðar. Frumvarpið um greiðsluþátttökuna snerist eingöngu um 6,5 af þessum milljörðum. Þeir lækka núna aðeins út af lækkuninni á þakinu, en mestmegnis var bara verið að endurdreifa þeim, þannig að eftir stendur að greiðsluþátttaka íslenskra heimila verður allt að 33 milljarðar á ári. Það er þannig varðandi kröfuna um að útgjöld til heilbrigðiskerfisins verði a.m.k. 11% af vergri landsframleiðslu, krafa sem 86 þús. Íslendingar undirrituðu, að það er langur vegur frá að við náum að uppfylla hana, því að auðvitað á þessi aukning ekki að koma úr vasa almennings og það þarf að lækka greiðsluþátttökuna. Við þurfum að leggja fram áætlanir, mjög markvissar áætlanir um hvernig við ætlum að auka fjármuni inn í heilbrigðisþjónustuna og draga úr greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Stærstu póstarnir eru útgjöld vegna lyfja, það eru útgjöld vegna hjálpartækja, það eru útgjöld vegna tannlækninga, heilsugæslu- og sérfræðiþjónustu, sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar og fleira. Sumt af þessu, eins og sjúkraþjálfunin og iðjuþjálfunin, eru nú komin með betri hætti inn í greiðsluþátttökuna eftir frumvarp ráðherra og því ber að fagna, en eins og ég segi eigum við langt í land og þurfum að vera mjög markviss þegar við ákveðum hvernig við aukum fjármuni inn í heilbrigðiskerfið á næstu árum.

Það kemur fram í nefndaráliti hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur að bara til þess að halda í horfinu varðandi sömu þjónustu og viðhald húsnæðis á Landspítalanum á næsta ári þyrfti til viðbótar 5,3 milljarða, en það er langur vegur að verið sé að leggja það inn í starfsemina og samanlagt eiga Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri að fá 2,3 milljarða til viðbótar á næsta ári. Ef þessi áætlun nær fram að ganga, sem við skulum vona að hún geri ekki því að við verðum búin að fá betri og réttlátari ríkisstjórn þegar fjárlög verða lögð fram, þá mun verða raunniðurskurður á rekstri Landspítalans á næsta ári.

Ég vil að lokum fagna því að við séum búin að stíga það skref sem unnið hefur verið að frá því eftir hrun þegar byrjað var að vinna lögin um opinber fjármál. Það voru fjórir fjármálaráðherrar sem komu að þeirri vinnu en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hóf vinnuna. Þá tóku við af honum samfylkingarkonurnar Oddný G. Harðardóttir og Katrín Júlíusdóttir og að lokum varð Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og kláraði vinnuna. Alþingi afgreiddi frumvarpið sem lög frá Alþingi og fjármálaáætlunin og fjármálastefnan eru hluti af þeirri löggjöf. Þótt okkur greini á um pólitískar áherslur og fáum aukin tækifæri til að ræða pólitískar áherslur með þessum áætlunum þá er mikilvægt að benda á hversu miklu máli það skiptir að við búum til slíkar áætlanir til að koma meiri festu á umgjörð ríkisfjármála og fyrirsjáanleika, ekki aðeins fyrir almenning heldur líka fyrir stofnanir og þá fjárliði, þannig að vitað sé við hverju má búast og líka til þess að stefnan sé mörkuð með fjármunum en ekki einungis orðum, svo að við sjáum hvað fram undan er.

Ég ætla að leyfa mér, þótt ég sé krítísk á ýmislegt í þessari stefnu núverandi ríkisstjórnar, að óska hv. fjárlaganefnd til hamingju með það að vera að afgreiða stefnuna og áætlunina frá sér.