orð ráðherra um stöðu fjölmiðla.
Virðulegi forseti. Ég átti erfitt með að skilgreina einhvern kjarna í þessari fyrirspurn. Er ekki rétt að gera tillögur að úrbótum fyrir fjölmiðlaumhverfið? Jú, ég held reyndar að full ástæða sé til að velta því fyrir sér, hvort það kunni ekki að vera svo komið út af tæknibreytingum og öðru sem hefur gert fjölmiðlafyrirtækjum í landinu erfitt fyrir að spyrja sig hvort það sé eitthvað í ytri umgjörðinni, eitthvað í lagaumhverfinu, skattumhverfinu mögulega, sem við getum gert til að treysta betur umgjörð fjölmiðla í landinu og þar með vernda þann mikilvæga tilgang sem fjölmiðlar hafa.
Annars er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna hv. þingmanni er svona mikið niðri fyrir út af einni léttri Facebook-færslu. Ég var einfaldlega að velta því upp að þegar maður horfir yfir fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í dag finnst manni víða skorta skýra ritstjórnarstefnu þegar birtist þar ein skoðun í dag og önnur á morgun, (SII: … eigin stefnu.) ýmsu dengt fram og þá sitja viðkomandi fjölmiðlar eftir sem tóm skel. Ég veit ekki hvers vegna það er sem þingmenn æsa sig svona mikið upp yfir því að maður opni á þessa umræðu. Er þetta eitthvert sérstakt (Gripið fram í.) viðkvæmt málefni fyrir þingmenn hér inni? Ég næ þessu bara ekki. Þetta er bara einföld hugrenning um stöðu fjölmiðlanna í landinu og skort á öflugum, sterkum fjölmiðlum með skýr skilaboð þar sem er einhver þráður frá degi til dags en þeir verði ekki bara gjallarhorn fyrir þá sem þar starfa. Það er hreinlega mín upplifun og ég ætla ekki að biðja þingmenn í þessum þingsal afsökunar á því.