145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mun í sjálfri ræðu minni fjalla efnislega um þetta frumvarp. Mér lék hins vegar hugur á að vita um afstöðu hv. þingmanns til þess hver sé rót þess vanda sem blasir við ungu fólki í dag sem allir eru sammála um, held ég, eða velflestir að eigi í nokkrum erfiðleikum með að kaupa sína fyrstu íbúð. Það blasir að sjálfsögðu við í öllum sértækum aðgerðum eins og þessi aðgerð vissulega er. Það leiðir af sértækum aðgerðum að þær geta haft áhrif á einhverja þætti, bæði þekkta og óþekkta, sem þarf að takast á við.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að þetta unga fólk sæti síðan eftir með engan viðbótarsparnað. Þetta er algjörlega órökstuddur málflutningur. Það liggur fyrir með kjarasamningum sem gerðir voru á síðasta vetri þar sem samið var um aukið framlag í séreignarsjóð að framlag launamanna í séreignarsjóð er mögulega í mörgum tilfellum orðið of hátt þannig að menn standa uppi með það við lok starfsævinnar að fá greidd yfir 100% af launum sínum þegar það lætur af störfum. Við það er miðað í þessari aðgerð að þetta hlutfall lækki verulega, en eftir standi þó að fólk sem lýkur störfum á í séreignarsjóði verulega umfram þau laun sem menn hafa þegar þeir láta af störfum. Hver og einn þarf að skoða fyrir sig hvað hentar hverjum og einum.

Með þessu frumvarpi er bara verið að auka valmöguleika ungs fólks til viðbótar við þá kosti sem eru í stöðunni. Eftir stendur hins vegar gríðarlegur lóðaskortur, skortur á framboði á lóðum í Reykjavík langt umfram (Forseti hringir.) sveitarfélögin í kringum Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu. Það er ábyrgðarhluti af Samfylkingunni sem stýrir þessari úthlutun að takast ekki á við þann vanda og auka samkeppni í framboði á húsnæði.