145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sveitarfélögin í landinu sinna mikilvægri grunnþjónustu. Það er Alþingi til vansa að frumvarp sem leiðréttir hlut þeirra í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er óafgreitt eftir að hafa legið hér inni í nærfellt ár og kom fram á árinu 2015 frá hæstv. innanríkisráðherra. Sveitarfélögin áttu að fá bætta þá hlutdeild sem þau urðu af vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar sem nemur um 4,8 milljörðum kr. Sveitarfélögin hafa frá hruni, flest ef ekki öll, þurft að skera niður í mikilvægri grunnþjónustu og stakkur stærri sveitarfélaganna sérstaklega er nú um stundir mjög þröngt skorinn.

Það er mikilvægt að grunnþjónusta í sveitarfélögunum líði ekki fyrir það að hér á Alþingi séu ekki afgreidd mál sem tryggja sveitarfélögunum auknar tekjur í samræmi við samninga sem ríkið og sveitarfélögin hafa þegar gert. Slíkir samningar verða að ganga eftir og Alþingi má ekki liggja á liði sínu við það að skapa sveitarfélögunum þau rekstrarskilyrði sem ríkisstjórnin og sveitarfélögin hafa komið sér saman um. Málefni sveitarfélaganna og sú grunnþjónusta sem þar er varðar hvert heimili í landinu og ég legg áherslu á að ramminn sem þeim er sniðinn þarf að vera hafinn upp yfir flokkapólitík og upp yfir gíslatöku í nefndum þingsins.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna