145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[16:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hér á að reka ákveðinn lokahnút á þetta hrikalega mál með sparisjóðina. Það verður að segjast eins og er að bæði umfangið á skýrslunni sem kom frá þeirri nefnd sem fór yfir málefni sparisjóðanna í aðdraganda hrunsins og eftir hrunið var að mörgu leyti ekki mjög gagnlegt af því að í þessari skýrslu var að finna margt sem nefndinni var í raun og veru ekki falið að gera. Við erum að fjalla um meðferð og samantekt og álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á skýrslunni. Ég hef alla tíð kallað eftir því að við mundum fá konkret tillögur um hvað á að gera til að laga þessi mál og fyrirbyggja að annað eins geti gerst aftur. Margt hefur komið fram í umræðunum um málið núna sem er gagnlegt. Ég velti fyrir mér hvert nú eigi að halda.

Ég og mjög margir aðrir Íslendingar vorum miklir aðdáendur grunnhugmyndafræðinnar á bak við sparisjóðina. Þeir voru litlir bankar í sveitarfélögunum sem áttu að nýtast fyrir þá sem bjuggu í nágrenni við bankana. Upprunalega voru þetta mjög mikilvægar undirstöður undir byggðir landsins. Því miður fór þetta allt inn í ginnungagap græðginnar á árunum fyrir hrun. Saga sparisjóðanna á Íslandi var sannarlega sorgleg með örfáum undantekningum.

Ég hef reynt að fá svör við því af hverju við báðum ekki um neina undanþágu þegar hér var innleidd EES-reglugerð um fjármálakerfin því að við erum svo sannarlega með þá sérstöðu að við erum fámennt land. Þær reglugerðir sem hér voru teknar upp hentuðu illa mjög litlum bönkum eins og sparisjóðunum. Jafnframt skapaðist þar nákvæmlega sami freistnivandi og í risabönkum. Maður hlýtur að velta fyrir sér sem einni leið til að fara fram veginn hvort ekki sé orðið tímabært að samþykkja lög um að aðskilja hefðbundna viðskiptabanka frá svokölluðum kasínóbankafúnksjónum. Hér hefur legið inni frumvarp frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar að lútandi. Mér þætti gaman og gagnlegt að við fengjum að klára það mál og í það minnsta greiða atkvæði um það áður en þessu þingi lýkur.

Það er enn þannig sem er mjög sorglegt að mörgum, þar á meðal mér, finnst þau kerfi sem eiga að vera með alvörueftirlit oft ekki nægilega sterk eða staðföst. Það átti einnig við um það sem gerðist eftir hrun varðandi sparisjóðina. Eins og komið hefur fram hjá öðrum þingmönnum sinnti Fjármálaeftirlitið ekki hlutverki sínu nægilega vel. Þeir frestir sem sumir af þessum sparisjóðum fengu og enduðu með ósköpum hefðu í raun aldrei átt að vera veittir.

Í ræðum þeirra þingmanna sem hafa talað á undan mér hefur nánast allt verið sagt sem ég hefði viljað segja um málið. Að sjálfsögðu er hægt að tala ítarlega og lengi um þá spillingu, þau afskipti og þá hörmulegu niðurstöðu sem varð í tengslum við bankana á Íslandi. Ég hef miklu meiri áhuga á að spá í hvort við getum gert eitthvað til að tryggja að hér sé hægt að stunda öðruvísi bankaviðskipti, t.d. bankaviðskipti sem eru ekki hvetjandi fyrir starfsmenn eða æðstu stjórnendur til að taka sér ofurbónusa. Mér finnst furðulegt, og ég skil það bara ekki, af hverju lögin um bónusa falla ekki undir skattalöggjöf er lýtur að launum. Af hverju er þetta ekki skattlagt eins og hver önnur laun? Ég tel mjög brýnt og skora hreinlega á núverandi valdhafa og allt þingið að koma böndum á þessa bónusa áður en þetta heldur lengra áfram. Fólki er verulega misboðið. Ég verð að segja að miðað við þær fórnir sem mjög margir einstaklingar hafa þurft að færa, og eru enn að berjast við bankana til að hafa þak yfir höfuðið eða hafa misst allt sitt í gjaldþrot eða þurft að flýja land, finnst mér þetta eins og verulega blaut tuska í andlitið á þeim. Ég vildi gjarnan að strax færi fram ítarleg vinna um það hvað við þurfum að gera til að hafa möguleika á að hafa hér samfélagsbanka eins og sparisjóðirnir áttu upprunalega að vera. Mér skilst á samþingsmönnum mínum að til þess að það sé hægt þurfi ekki að breyta lögum mikið. Ég velti fyrir mér af hverju það hefur ekki enn verið gert. Ísland hefur að mörgu leyti gert margt til að læra af því gríðarlega brjálæði sem varð hér fyrir hrun og afleiðingum þess. En enn sem komið er er ansi mikið eftir af tékklistanum á þingsályktuninni sem Alþingi samþykkti einróma. Mér finnst mjög mikilvægt áður en þessu þingi verður lokið, miðað við öll þau mál sem eiga að koma frá ríkisstjórninni, að nægur tími gefist til að fara yfir þá þingsályktun og kanna hvort við getum gert eitthvað til að klára þær tillögur sem þar liggja fyrir. Auðvitað er ekki hægt að klára allt. Heildstæð rannsókn á þessum bönkum hefur enn ekki átt sér stað og þarf að ákveða hvort það þurfi að vera afmarkað eða ekki og hvað sé hægt að læra af því hvernig sú skýrsla sem við byggjum álit okkar á fór algerlega úr böndunum.

Það má ekki vera þannig að þó að eitthvað svona gerist megi ekki ráðast í frekari rannsóknir. Ef við ætlum að læra af fortíðinni er mjög margt hægt að gera til að finna upplýsingar um hvað fór úrskeiðis. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis fékk aldrei almennilega umfjöllun á Alþingi. Þrátt fyrir að ítarleg umfjöllun hafi orðið um hana í nefnd sem var falið það hlutverk að fara ítarlega yfir niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis beindust augun að Eyjafjallajökli en ekki inntaki skýrslunnar því að svo óheppilega vildi til að það fór að gjósa nokkrum dögum eftir að skýrslan var loksins lögð fram.

Fyrst ekki koma fram nein frumvörp eða annað slíkt óska ég eftir því að við vinnum eitthvað til að laga það sem fór úrskeiðis hjá sparisjóðunum, t.d. að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari ítarlega yfir það hvort eitthvað þurfi að gera, hvort það séu göt sem þarf að stoppa í eða finna leið til að tryggja að ef það er áhugi á að stofna lítinn samfélagsbanka á Íslandi hindri gríðarlega stórar Evrópureglugerðir það ekki. Það er gríðarlega lítið traust á bönkum á Íslandi yfir höfuð. Maður er alltaf reglulega spurður hjá fólki úti í bæ: Hvert á ég að fara með viðskipti mín því að ég vil ekki vera hjá þessum banka eða hinum af þessum stóru bönkum út af alls konar siðferðislegum álitamálum? Nú eru margir að tala um að þeir vilji fara eitthvað annað og ekki vera hjá bönkunum sem eru að greiða út þessa rosalegu bónusa. Ég sá í fréttum rétt áðan að Íslandsbanki ætlar líka að greiða út mikla bónusa. Þá væri mjög gagnlegt ef það væri samfélagsbanki, einhvers konar lítill sparisjóður á höfuðborgarsvæðinu, sem maður gæti leitað til.

Eins og margir sem ég þekki er ég með viðskipti hjá tveimur af sparisjóðunum sem þurftu ekki að koma með bænabauk til ríkissjóðs. Að sjálfsögðu þarf að vera til banki sem fólk treystir. Það eru alls konar teikn á lofti úti í hinum stóra heimi um að aftur geti orðið fjármálahrun enda fylgir það einhvers konar kúrfu. Fjármálakerfi taka miklar dýfur og almenningur þarf yfirleitt að standa undir þeim dýfum og bera tjónið. Því hef ég og við píratar mikinn áhuga á að finna leiðir til að tryggja að almenningur geti notað banka. Það er ekki hægt að búa í nútímasamfélagi án þess að vera í viðskiptum við banka af einhverju tagi. Hér verður að ríkja bæði gott regluverk og fjölbreytileiki í bankastarfseminni. Ég veit ekki hvort nokkurn tímann verði að nýju hægt að stofna sparisjóði eins og voru en þessi skýrsla og álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skilur mig fyrst og fremst eftir með þá spurningu hvort einhver leið sé til að hafa meiri fjölbreytileika í bankastarfsemi og hvort við höfum gert nóg til að fyrirbyggja álíka hneisu og varð bæði í tengslum við sparisjóðina sem eru teknir fyrir í þessari skýrslu og bankana almennt hér á landi.