145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er nákvæmlega þetta sem mér finnst skorta inn í þann gríðarlega þrönga ramma sem er settur í búvörusamningum, nákvæmlega það sem þingmaðurinn talar um. Við bjóðum ekki upp á að sköpunarkrafturinn sé nýttur. Samningurinn er mjög einhliða og þrengir verulega að möguleikum á einhverju nýju. Ég velti fyrir mér hvort það væri kannski tilefni til, og ég veit ekki hvort það hafi verið gert hér á þingi, að gera langtímaáætlun sem væri mun yfirgripsmeiri og tæki á því t.d. að það er fáránlegt að vera að flytja inn matvæli, sér í lagi grænmeti, sem er mjög auðvelt og auðsótt að rækta hér. Aftur á móti hefur það verið þannig að t.d. garðyrkjubændur hafa fengið mjög lítinn stuðning miðað við aðra tegund af búskap. Ívilnanir á verði orku sem maður hefur séð hjá t.d. risafyrirtækjum eins og álfyrirtækjum er alveg ótrúlega furðuleg stefna og hlýtur að þurfa að endurskoða heildrænt. Það er akkúrat það sem mér hefur fundist vanta í stefnumótun hér á landi. Hún er ákaflega þröng eins og þessir samningar eru og virðist vera, vil ég leyfa mér að segja, farið að slá verulega í hana.

Mig langaði að spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að þörf sé á miklu víðari sýn á þennan málaflokk því að eins og þingmaðurinn kom inn á og ég er alveg sammála þá skiptir landbúnaður miklu máli ef hann er stundaður rétt og í takti við náttúruna og framtíðina.