145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla aðeins að þráast við. Ég er alveg sammála lokaorðum hv. þingmanns og ég held að það sé enginn í þessum sal sem vill ekki halda landinu í byggð og áttar sig ekki á því að það þarf að gera með því að styrkja bændur eða styrkja landbúnaðinn. Ágreiningurinn hér snýst ekki um það. Hann snýst um aðferðirnar sem eru notaðar. Hv. þingmaður segir að nú eigi að fara í gang samtal — og ég veit að þetta hefur verið sagt margoft, en af því að mér fannst hann ekki vera alveg nógu skýr þá ætla ég að reyna einu sinni enn — þjóðarsamtal um það hvernig eigi að styrkja landbúnaðinn. Þetta á að taka þrjú ár. Ég spyr: Af hverju er ekki bara hægt að binda þennan samning til þriggja ára og segja: Þá ætlum við að gera nýjan? Af hverju er þetta loðna endurskoðunarákvæði sem ég t.d. treysti ekki, því miður? Af hverju er ekki bara hægt að segja það fyrst menn leggja svona mikla áherslu á þjóðarsamtalið? Það hefði náttúrlega átt að vera búið að fara fram, en látum það eiga sig. Það hefst núna. Af hverju er ekki hægt að láta þennan samning gilda til þriggja ára og byrja svo upp á nýtt?