145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Taprekstur og niðurskurður er veruleikinn á íslenskum fjölmiðlum. Við höfum fylgst með erfiðleikum RÚV á undanförnum missirum. Nú sjáum við einkarekna ljósvakamiðla stíga fram og sömuleiðis eiga vaxtarsprotarnir í fjölmiðlunum, ýmsir netmiðlar, í taprekstri og erfiðum rekstrarskilyrðum. Þetta á að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni. Þetta verður ekki leyst með því að rýra hlut Ríkisútvarpsins. Við þurfum að bæta rekstrarskilyrði allra fjölmiðla á Íslandi vegna þess að þau hafa farið hratt versnandi. Auglýsingamarkaður þeirra dregst saman, alþjóðleg samkeppni fer harðnandi og neytendur vilja síður greiða fyrir innihald en áður.

Ef við ætlum að halda uppi sterkum og öflugum fjölmiðlum þá þurfum við að gera breytingar í skattumhverfi þessara miðla, í stuðningi við þessa miðla. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að menn þvert á flokka tali sig saman um heildstæðar tillögur sem komi til móts við þarfir smárra netmiðla, gamalla gróinna dagblaða, einkarekinna ljósvakamiðla og Ríkisútvarpsins vegna þess að veikir fjölmiðlar eru veikt lýðræði. Ef það er eitthvað sem Alþingi Íslendinga á að standa vörð um og koma í veg fyrir þá er það að lýðræðið á Íslandi veikist.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna