145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[19:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem vantaði í þingsályktunartillöguna sem borin var fram var samningstextinn og þýðingin á honum, skilst mér, þannig að þetta var líka tæknilegs eðlis. Hins vegar verð ég líka að segja alveg eins að þetta er bara það stórt mál og jafnvel þó að það komi inn á síðustu dögum þingsins er búið að vera talsverður aðdragandi að því. Þeim ráðherra sem hér stendur er það mikið kappsmál að reyna að ýta við málinu þannig að það komi enn frekari þrýstingur á aðrar lagabreytingar er varða réttindi fatlaðs fólks. Mér finnst það hið besta mál og ég verð bara afskaplega hissa ef menn ætla að fara að gera það að pólitísku þrætumáli að við ætlum að fullgilda (Gripið fram í.) samning Sameinuðu þjóða um réttindi fatlaðs fólks. Það kemur mér bara verulega á óvart, ég verð að segja það alveg eins og er. Mér skilst að þingsályktunartillagan hafi ekki alveg verið tilbúin samkvæmt mínu fólki í ráðuneytinu. En ég skal líka alveg viðurkenna það hér að ég hef ekki borið saman þessar þingsályktunartillögur. Það kann að vera vegna þess að ég tók við embætti núna í byrjun apríl. Þið verðið bara að skammast út í mig fyrir það, en ég held þið ættuð líka að fagna því að verið sé að ganga frá málinu með þessum hætti. (Gripið fram í.)