145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

skýrsla meiri hluta fjárlaganefndar um einkavæðingu bankanna.

[16:03]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur um samantekt sem tveir hv. þingmenn í fjárlaganefnd, Vigdís Hauksdóttir, formaður nefndarinnar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, hafa kynnt og nefnist Skýrsla um einkavæðingu bankanna hina síðari vill forseta taka fram:

Fram kemur í fundargerð fjárlaganefndar frá 2. maí sl. að formaður nefndarinnar kynnti tillögu að bréfum til Ríkisendurskoðunar, Fjársýslu ríkisins og Bankasýslu ríkisins er vörðuðu endurreisn bankakerfisins og samninga við skilanefndir gömlu bankanna. Minni hluti nefndarinnar gerði athugasemdir við verklag meiri hlutans við framsetningu málsins og voru bréfin því send viðtakendum í nafni meiri hluta nefndarinnar. Ákvörðun meiri hluta nefndarinnar um að afla upplýsinga frá áðurgreindum aðilum byggði hann á heimild í 26. gr. þingskapa um að nefnd sé hvenær sem er heimilt að fjalla um mál sem heyrir undir málefnasvið hennar þó að þingið hafi ekki vísað því sérstaklega til hennar.

Á fundi fjárlaganefndar 25. maí greindi formaður frá þeim gögnum sem nefndinni höfðu borist. Á fundi nefndarinnar 12. september sl. kynnti formaður hennar samantekt sem nefnd var Skýrsla um einkavæðingu bankanna hina síðari. Samantektin var ekki lögð fram á fundinum en greint frá að henni yrði dreift til nefndarmanna síðar um daginn áður en formaður og varaformaður nefndarinnar mundu kynna hana fyrir fréttamönnum.

Þar er afstaða forseta að samantekt sú sem kynnt var í fjárlaganefnd og með fréttamönnum í nafni meiri hluta fjárlaganefndar um einkavæðingu bankanna hina síðari sé ekki skýrsla í skilningi þingskapa, enda hefur samantektin ekki hlotið formlega meðferð í fjárlaganefnd í samræmi við ákvæði þingskapa. Ég lít því svo á að málið sé enn til umfjöllunar í fjárlaganefnd og hafi ekki hlotið afgreiðslu nefndarinnar.