145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

framtíðarskipan lífeyrismála.

[16:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu yfirferð yfir þetta stóra mál. Ég vil meina að hérna sé um að ræða stærsta einstaka skref seinni ára í átt að auknum stöðugleika á Íslandi, að þróa vinnumarkaðslíkanið í átt til þess sem gerist hjá þjóðum sem að jafnaði búa við lægri verðbólgu og þar af leiðandi lægra vaxtastig en við höfum mátt venjast á Íslandi. Það eru margir sem hafa komið að því verki og hafa þannig dregið þennan vagn. Ég vil þakka öllum þeim sérstaklega fyrir.

Hér er spurt um hvað gert hafi verið sérstaklega til að tryggja hagsmuni framtíðarkynslóða. Í því sambandi vil ég kannski fyrst og fremst segja að við hljótum ávallt að vilja búa við lífeyrissjóðakerfi sem er sjálfbært, þar sem menn hafa innstæðu fyrir þeim loforðum sem gefin eru um lífeyrisréttindi inn í framtíðina. Það er þar sem skilur á milli Íslands og svo margra annarra Evrópuríkja sem því miður hafa ekki borið gæfu til þess að leggja til hliðar fyrir sínum framtíðarlífeyrisskuldbindingum heldur byggja á gegnumstreymisfyrirkomulagi. Síðan þegar árin líða og fólk eignast færri og færri börn og færri og færri eiga þar með að standa undir byrðinni sem fylgir fjöldanum sem fer á lífeyrisaldur þá byrjar kerfið að gefa eftir. Á endanum er stór hætta á að mörg þeirra loforða sem gefin eru á hverjum degi um lífeyrisréttindi langt inn í framtíðina verði aldrei efnd. Það sem við erum að gera hér með fullfjármögnun kerfisins og með því að tryggja að lífeyrisréttindaávinnslan í A-deild LSR og hjá Brú sé sjálfbær er að gefa ekki út loforð sem engin innstæða er fyrir.