145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:40]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að segja að frá því að ég hef náttúrlega verið í utanríkismálanefnd og fylgst með þessu máli lengi, og líka í efnahags- og viðskiptanefnd. Málið kom fyrst til þingsins 2012 og var þá í þeim búningi að það hefði í raun þýtt framsal bæði framkvæmdarvalds og dómsvalds til stofnana Evrópusambandsins. En íslenska stjórnarskráin sagði nei. Stjórnarskráin sem sagði: Nei, það er ekki hægt að fara fram á slíkt framsal. Stofnanir Evrópusambandsins þurftu að fara aftur að teikniborðinu og árum saman var unnið að því að koma þessu inn í tveggja stoða kerfi og núna hefur það tekist.

Með tveggja stoða kerfinu og lausninni sem við þekkjum úr EES-samningum er búið að koma því þannig fyrir að þessar stofnanir geta ekki með beinum hætti haft áhrif hér inni. Þær geta fara í gegnum tveggja stoða kerfið, í gegnum ESA. Þær geta ekki lokað bönkum á Íslandi þótt það væri talin nauðsynleg aðgerð í Evrópusambandinu. Sú aðgerð nær ekki hingað ef hún skaðar íslenska hagsmuni.

Til að taka af allan vafa (Forseti hringir.) fylgdi mjög snjall fyrirvari þessu máli og bókun sem hefur verið (Forseti hringir.) samþykkt bæði af Noregi, Evrópusambandinu og Liechtenstein, sem áskilur okkur fullan rétt (Forseti hringir.) til að beita fullveldi okkar sé þess þörf. (Forseti hringir.) Hér er því enginn að fara að framselja fullveldi. (Forseti hringir.) Þetta er mjög skýrt og hefur verið mjög vel um þetta mál fjallað.