145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

um fundarstjórn.

[17:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hefði nú einhver þeirra forseta sem sat hér á stól í dag eða hæstv. fjármálaráðherra sjálfur, hlustað á það sem þingmenn voru að segja þá vorum við ekki að óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. forsætisráðherra legðu fram forgangslista hér í ræðustól. Nei, við vorum ekki að því. Það hefði nú verið gaman ef einhver hefði haft fyrir því að hlusta á okkur hér í dag og jafnvel velta fyrir sér hvað ætti að gera við kröfur okkar. Krafan gengur út á það að hér verði haldinn fundur með forustufólki stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi, hvort sem það eru formenn eða þingflokksformenn eða forustufólk í ríkisstjórn með stjórnarandstöðuformönnum, til þess að fara yfir hvernig hægt sé að ljúka þessu þingi. En að bjóða okkur upp á það með skætingi að ef við séum dugleg vinnu í nefndunum þá kannski gerist eitthvað. Það er ekki góð leið til að skapa betra andrúmsloft hér.