146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[23:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú vil ég byrja á að taka fram að ég er ekki hér né heldur nokkur annar þingmaður til þess að verja þann úrskurð sem kom fram hjá kjararáði síðasta kjördag. Þvert á móti er verið að taka til í þessu frumvarpi svo að annað eins komi ekki fyrir aftur. Ég vil bara hnykkja á því. Hér eru ekki uppi andstæðar fylkingar um þetta. Formenn eða forsvarsmenn allra flokka voru fyrst um sinn einhuga um þetta. En svo heltist úr lestinni. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því sem ég ætla ekkert að leggja mat á.

Ég vil aðeins segja: Um þessar breytingar á lögunum megum við vera viss um, eins og kemur fram í 4. gr. þessa frumvarps, að við erum að styrkja það að kjararáð hegði sér ekki með þeim hætti sem gert var á kjördag síðastliðinn. Það verður ólöglegt fyrir ráðið að ákveða í svona stökkum eins og þá var gert. Því ber að fylgja, taka tillit til, það skal, það kemur fram, það skal ætíð fylgja þróun á launamarkaði. Þarna erum við að styrkja þetta. Það mátti skilja á hv. þingmanni að við værum einhvern veginn að veikja þetta ákvæði og það er bara einfaldlega rangt. Og ég vil halda því til haga.

Við höfum átt gott samstarf, nefndarmenn, og fulltrúi þingflokks Pírata sem hv. þingmaður er í hefur svo sannarlega gert sitt þar. Því ber að fagna hvað samstaðan hefur verið mikil. (Forseti hringir.) Mér finnst ástæða til að árétta þetta hér eftir ræðu þingmannsins. Annars hef ég ekkert meira við hana að athuga.