146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi herra forseti. Ég þakka fyrir þessa málefnalegu umræðu sem hefur verið hér í dag og fagna þeim áhuga sem hv. þingmenn hafa sýnt þessu mikilvæga og alvarlega máli. Jafnframt fagna ég þeim mörgu hugmyndum sem hafa komið fram. Ég mun svara á hlaupum þeim fyrirspurnum sem komu.

Ég get alveg tekið undir það með mörgum hv. þingmönnum að auðvitað voru mín svör tiltölulega þunn. Ég er bara ekki kominn lengra í þessu máli og ég þekki málaflokkinn ekki nægilega vel. Þess vegna leita ég til sérfræðinga og undirstofnana til þess að kynna mér málið betur. En málið mun verða sett í forgang.

Hv. þm. Smári McCarthy spyr um opnun ársreikninga og fyrirtækjaskrár og hluthafaskrár. Ég tel að allar þessar skrár eigi að vera opnar og vil bæta því að ég tel að það eigi að vera gagnsætt eignarhald þannig að sé ekki bara sagt að það séu einhver félög sem eigi önnur félög. Það á að koma fram hver er hinn endanlegi eigandi er.

Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir ræðir um hvort ekki sé hægt að bæta samstarf milli Seðlabanka og skattyfirvalda. Það má vissulega bæta. Það er augljóst að við þurfum að fá betri upplýsingar frá Seðlabankanum. Ég hef ekki upplýsingar um það hvort menn hafa verið að flytja hér inn og út úr landi sömu peningana og gera sér þannig mat úr þeim hér á landi. En það væri vissulega mikilvægt að hafa upplýsingar um slíkt.

Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir spyr um beinar aðgerðir. Ég get alveg viðurkennt það hér aftur að ég er ekki tilbúinn með mikið af beinum aðgerðum núna. Ég get hins vegar sagt að við getum reynt að ráðast gegn svarta hagkerfinu með því að t.d. banna það að greiða laun í reiðufé. Við getum bætt samninga um upplýsingaskipti og fjölgað þeim, tvísköttun við önnur lönd. Ég tel það að það eigi að gera ítarlegri rannsóknir eins og ýmsir spurðu hér um. (Forseti hringir.)

Það er mikilvægt að skoða tvísköttunarsamningana sem nefndir voru í skýrslunni, að þeir hafi verið misnotaðir. Það er auðvitað mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að marka pólitíska stefnu, eigendastefnu ríkisins. Og þó að ég hafi sagt að innviðir ríkisins væru sterkir má lengi gott bæta. (Forseti hringir.) Ég held að það sé mikilvægt að fjármálaráðherra styðji við það af alefli.