146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[13:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Þingið hefur engin almennileg verkfæri til þess að draga ráðherra til ábyrgðar fyrir embættisafglöp nema þá kannski helst að kalla Landsdóm saman vegna afbrota ráðherra í starfi. Hefur það stundum verið kallað kjarnorkukosturinn. En það má alveg skoða hvort ítrekuð embættisafglöp og misnotkun ráðherra á stöðu sinni geti talist varða 140. og 141. gr. almennra hegningarlaga um brot opinberra starfsmanna í starfi. Það eru einu verkfærin sem við höfum til þess að draga ráðherra til ábyrgðar fyrir alvarleg brot í starfi. Við þurfum að spyrja okkur: Ef þingið er ekki sterkara en þetta þurfum við þá ekki að bæta það? Þurfum við ekki að laga þau verkfæri sem þingið hefur til þess að draga ráðherra til ábyrgðar fyrir embættisafglöp og misnotkun á stöðu sinni?