146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

yfirlýsingar Bandaríkjaforseta og framtíð NATO.

[14:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er áfram spurt um Bandaríkin í fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump hefur náttúrlega farið hryllilega af stað. Hann lofaði í kosningabaráttunni að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós, banna tilteknum aðilum að koma til landsins og hann sýndi konum og réttindum þeirra alveg einstaklega mikla lítilsvirðingu. Hann talaði líka um að NATO væri handónýtt fyrirbrigði á einhverjum tímapunkti. Nú á fyrstu dögum í embætti hefur hann gefið út tilskipanir og yfirlýsingar sem benda til þess að manninum sé full alvara. Við því þarf auðvitað að bregðast. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að þessi mannfjandsamlega sýn sem birtist á hverjum einasta klukkutíma hjá honum skuli koma út úr munni kannski valdamesta manns heims.

Samhliða þessu birtast fréttir af samtölum hans við Pútín Rússlandsforseta þar sem þeir eru að leggja á ráðin um nánara samstarf m.a. á sviði varnar- og hernaðarmála. Við skulum hafa það í huga að þetta er sami Pútín og hefur ítrekað sýnt af sér einræðistilburði og yfirgang gagnvart alþjóðalögum og gerir hann að einhverri helstu ógn okkar heimshluta. Þetta er líka sami Pútín og Vesturlönd gripu til refsiaðgerða gagnvart vegna framferðis í Úkraínu.

Eitt af þeim málum sem BBC News ræðir að þeir hafi átt jákvæðar og uppbyggilegar samræður um eru einmitt málefni Úkraínu. Þá koma í fréttinni líka fram áhyggjur háttsettra stjórnmálamanna í Bandaríkjunum af því að Trump hyggist aflétta viðskiptabanni á Rússa.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því hvort hann telji að eðli NATO muni breytast í tíð Trumps og hvort við þurfum að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af þessu nána samstarfi þessara tveggja risa án þess að önnur Vesturlönd séu þar við borðið. (Forseti hringir.) Að síðustu spyr ég hvort hann muni gera athugasemdir við framferði forseta Bandaríkjanna á vettvangi NATO.