146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:12]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð að segja að það verður einkennilegt fyrir hv. utanríkismálanefnd að taka fyrir þessa þingsályktunartillögu þar sem er sérstaklega gert ráð fyrir að hv. utanríkismálanefnd sé ekki til þess fallin að fjalla um þessa tvo tilteknu samninga eða samningaviðræður. Ég verð að segja það. En það er þá bara úrlausnarefni.

Annað sem ég hjó eftir í máli hv. þingmanns er að ég fæ ekki alveg svör við vegna mikilvægis þessa máls, þar sem þessir samningar hafa til að mynda ekki komið til Alþingis, þörfinni á að bregðast við með sérstakri þingnefnd. Ef þingsályktunartillagan verður samþykkt verður nefnd kölluð saman og þingmenn fara að fjalla um samninga sem eru ekki einu sinni orðnir að veruleika. Það verður svolítið einkennilegt. Ég spyr því aftur: Hvað er það nákvæmlega sem kemur í veg fyrir að hv. utanríkismálanefnd á Alþingi taki þessa samninga, eða umræðu um þessi atriði, til skoðunar, eða þá að þingheimur óski eftir sérstakri umræðu við ríkisstjórn, hv. utanríkisráðherra, um þessi atriði? Það hefur ekki komið nægilega fram að mínu mati rökstuðningur fyrir því, haldbær málefnaleg rök fyrir því, að við beitum því sérstaka úrræði sem er í 32. gr. þingskapa að setja á fót þessa sérstöku þingnefnd. Þeir fulltrúar á þingi sem ekki eiga sæti í utanríkismálanefnd hafa öll tök á að vera áheyrnarfulltrúar í utanríkismálanefnd og fá allar þær upplýsingar sem þeir vilja, óski þeir þess.