146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Eiðs Guðnasonar.

[10:30]
Horfa

Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Sú óvænta fregn barst í gær að Eiður Guðnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, hefði orðið bráðkvaddur á heimili sínu sl. mánudag, 30. janúar, 77 ára gamall.

Eiður Svanberg Guðnason var fæddur í Reykjavík 7. nóvember 1939. Foreldrar voru Guðni Guðmundsson, verkamaður þar, og kona hans, Þóranna Lilja Guðjónsdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1959, var við nám í stjórnmálafræði við Delaware-háskóla í Bandaríkjunum eitt ár en lauk svo BA-prófi í ensku og enskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1967. Hann var löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi úr ensku.

Eiður Guðnason varð, aðeins rúmlega tvítugur, blaðamaður við Alþýðublaðið, en réðst árið 1967 sem fréttamaður til hins nýstofnaða íslenska sjónvarps. Varð hann þegar þjóðþekktur í því starfi, vinsæll og vel látinn gestur í stofum allra landsmanna.

Við hin miklu umbrot í stjórnmálum árið 1978 söðlaði Eiður um, kvaddi fréttamennsku og fór í framboð fyrir Alþýðuflokkinn í Vesturlandskjördæmi. Hann fékk mikinn byr, bæði í prófkjöri og kosningum, og sat í stórum hópi þingmanna Alþýðuflokksins eftir kosningarnar það ár. Átti hann síðan sæti á Alþingi í samfellt 15 ár, sat á 17 löggjafarþingum alls. Árið 1991 varð Eiður Guðnason umhverfisráðherra og norrænn samstarfsráðherra í samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og gegndi því embætti í um tvö ár. Um mitt ár 1993 sagði Eiður af sér bæði þingmennsku og ráðherradómi og varð sendiherra Íslands í Noregi. Því starfi gegndi hann með miklum ágætum í fimm ár, á viðkvæmum tíma í samskiptum landanna, en varð þá skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu þar til hann fór, árið 2001, til Winnipeg í Kanada sem aðalræðismaður Íslands. Hann varð síðar sendiherra í Peking, en lauk ferli sínum sem fyrsti sendimaður Íslendinga í Þórshöfn í Færeyjum árið 2007.

Eiður Guðnason var starfsamur þingmaður og öflugur talsmaður síns kjördæmis og kjósenda. Hann var formaður þingflokks Alþýðuflokksins 1983–1991, mjög virkur í norrænu samstarfi á þingmannsárum sínum en átti einnig sæti í öðrum alþjóðanefndum. Á þinginu 1979–1980 var hann formaður fjárlaganefndar, þótt stjórnarandstæðingur væri. Sem þingmaður lét hann mest til sín taka á sviði mennta- og menningarmála.

Á blaðamannsárum sínum ritaði Eiður Guðnason mikið í blöð og þýddi úr erlendum málum, og sem sjónvarpsmaður varð rödd hans og málfar þekkt og rómað. Hlaut hann árið 1974 verðlaun úr Móðurmálssjóði Björns Jónssonar ritstjóra. Alla tíð lét Eiður sér mjög annt um íslenskt mál og íslenska menningu og ritaði um það hugðarefni sitt ófáa pistla í seinni tíð á netinu, alveg fram á síðasta dag.

Eiður Guðnason var félagslyndur, ávallt skáti, og tók þátt í mörgum félögum og samtökum. Hann verður öllum sem honum kynntust, hvort sem var í blaðamennsku, í sjónvarpi, á vettvangi Alþingis eða ríkisstjórnar, svo og í utanríkisþjónustunni, minnisstæður maður fyrir dugnað sinn, einlægni og sterkar skoðanir.

Ötull þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni og með ágæta starfsorku kveður hann nú vettvang mjög óvænt.

Ég bið þingheim að minnast Eiðs Guðnasonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]