146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[10:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Að undanförnu hefur verið til umræðu umsókn einkaaðila um að fá samning við Sjúkratryggingar Íslands um að opna nýja starfsemi sem felur í sér sérhæfðar skurðaðgerðir og legudeild fyrir allt að fimm daga. Þetta er í raun og veru ekki hægt að kalla neitt annað en einkarekið sjúkrahús enda líta bæði landlæknir og einkaaðilinn, Klíníkin sjálf, á starfsemina sem sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Ef starfsemin verður skilgreind með þeim hætti kallar það á að hæstv. heilbrigðisráðherra þarf að taka ákvörðun um hvort veita eigi starfseminni starfsleyfi. Hjá ráðherra hvílir því risastór ákvörðun sem haft getur óafturkræf áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi og væri í raun grundvallarstefnubreyting í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Það er ólíku saman að jafna, stofurekstri sjálfstætt starfandi sérfræðilækna, einyrkjastarfsemi og því sem hér er á döfinni, því að þarna er í raun farið í kjarnastarfsemi Landspítalans og eftir atvikum annarra sjúkrahúsa úti um land.

Ef ákveðið verður að semja um þessa starfsemi er verið að færa fé frá hinu opinbera yfir til einkaaðila því að ekki liggur fyrir að bæta eigi neinu fé inn í heilbrigðiskerfið á tímum þar sem styrkja hefði þurft pólitíska samstöðu um að efla hið opinbera heilbrigðiskerfi, ekki síst þjóðarsjúkrahúsið sem er yfirfullt og undirmannað.

Það gleymist nefnilega oft í þessari umræðu að Íslendingar eru ekki nema 338.000. Samanburður við milljónasamfélög er óraunhæfur því að hættan hér er sú að uppbygging jafn sérhæfðrar þjónustu á einum stað muni grafa undan henni annars staðar. Það er óskynsamlegt að dreifa kröftum og fjármunum með þessum hætti á sama tíma og við þurfum að einbeita okkur að því að efla hið opinbera heilbrigðiskerfi sem um 80% landsmanna vilja að áfram verði rekið með félagslegum hætti. Ekki má heldur gleyma hlutverki þjóðarsjúkrahússins sem menntastofnunar, háskólasjúkrahúss.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort við getum ekki treyst því að hann muni standa vörð um hið opinbera heilbrigðiskerfi. Að sjálfsögðu vildi ég helst heyra hann taka afdráttarlausa afstöðu gegn þessum áformum um einkarekið sjúkrahús.