146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[10:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta fyrirspurn. Mikið hefur verið rætt um umsókn Klíníkurinnar síðustu daga og mikil umræða hefur verið um eðlisbreytingu í þeirri starfsemi. En mér finnst mikilvægt í þeirri umræðu að minna á að starfsemi Klíníkurinnar er ekki ný af nálinni heldur hefur hún verið í rekstri og rekið þjónustu samkvæmt samningi heilbrigðisráðuneytisins við Læknafélag Reykjavíkur um einfaldari aðgerðir til einhverra ára. Hún er þar af leiðandi á svipuðum stað og aðrar starfsstöðvar sérfræðinga sem starfa á einfaldari markaði.

Það er rétt að hér er verið að sækja um starfsleyfi og skoðun landlæknisembættisins á aðstöðu til þess að taka að sér flóknari aðgerðir, sem hingað til hafa bara verið framkvæmdar á sjúkrahúsum hins opinbera. Samkvæmt lögum er það skylda landlæknis að taka út aðstöðu og starfsemi Klíníkurinnar eins og hann hefur gert. Það er ekki þar með sagt að tekin hafi verið nein ákvörðun um að semja við Klíníkina um þannig aðgerðir á vegum hins opinbera. Varðandi flóknari aðgerðir hefur hið opinbera fyrst og fremst samið við opinbera spítala, Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og að einhverju leyti héraðssjúkrahúsin, eins og á Akranesi, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um neitt annað gagnvart Klíníkinni.

Tími minn er uppurinn þannig að ég verð að svara restinni af fyrirspurninni í seinna svari.