146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stefnumótun um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[10:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil ítreka svör mín um að það er ekki ætlun mín að gera stórkostlegar breytingar á heilbrigðiskerfi Íslendinga. Það er ekki ætlun mín að einkavæða kerfið eða auka stórkostlega einkarekstur í kerfinu. Það er ljóst að íslenska heilbrigðiskerfið er opinbert heilbrigðiskerfi að því leytinu til að greitt er fyrir mestalla heilbrigðisþjónustu af opinberu fé. Það er gert með yfirumsjón og undir ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og opinberra aðila. Það er engin ætlun mín, eða annarra, held ég, og enginn pólitískur vilji til þess að gera breytingar þar á.

Hins vegar hef ég verið að reyna að útskýra að hluti af rekstri og vinnu í íslenska heilbrigðiskerfinu er unninn af einkaaðilum nú þegar, bæði sjálfseignarstofnunum, sérstaklega þegar kemur að öldrunarþjónustu, en líka sjálfstætt starfandi sérfræðingum og fyrirtækjum þeirra. En það er allt gert með opinberu fé (Forseti hringir.) með eftirliti, umsjón og ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins og opinberra heilbrigðisyfirvalda. Það stendur ekki til að gera breytingar þar á.