146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ekki er ég að gera athugasemdir við að það fylgi ábendingar um hvernig megi afla fjár til að framkvæma tillöguna. Ég er sannarlega ekki að gagnrýna það. En ég mæli með því að þegar farið verður yfir málið verði þetta skoðað og metið, ekki bara á félagslegum grunni heldur líka á efnahagslegum og horft til þess hversu miklu máli það skiptir fyrir okkur að fæðingum fari aftur að fjölga, í efnahagslegu tilliti.

Ég vil spyrja hv. þingmann. Hún talaði hér um sveitarfélögin. Þegar rætt er um að það þurfi að brúa bilið, það þurfi að lengja fæðingarorlofið svo bilið sé styttra á milli fæðingarorlofs og leikskóla, þá er það auðvitað á ábyrgð sveitarfélaganna. Hvernig sér hv. þingmaður þetta samspil? Hún mælir með því að tryggingagjaldið sé nýtt til að fjármagna ríkishlutann, en hvernig sér hún samspilið? Kannski munu sveitarfélögin segja að þetta, ef frumvarpið verður samþykkt, fari í grábókina um gráa svæðið á milli ríkis og sveitarfélaga. Kannski er ekki búið að hugsa þetta alveg út í gegn en ég leyfi mér að varpa þessari spurningu fram.