146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:33]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og hv. þingflokki Vinstri grænna fyrir þetta góða mál sem ég styð heils hugar.

Eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns eru lagðar til þær breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof að réttur til þess hækki úr núverandi níu mánuðum í tólf mánuði í tveimur þrepum á árunum 2018 og 2019. Og gert er ráð fyrir að réttur til fæðingarorlofs skiptist þannig milli foreldra að hvort um sig hafi rétt til fimm mánaða en eigi tvo mánuði sameiginlega og geti skipt þeim með sér eins og verkast vill. Þetta er mjög gott.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur komu ýmis sjónarmið er varða þetta ákvæði til umræðu við vinnslu þingmálsins. Ég held við séum öll sammála um mikilvægi þess að báðir foreldrar nýti að fullu rétt sinn til fæðingarorlofs, þannig stuðlum við að jafnrétti og að auknum möguleikum fyrir barnið, málið snýst um barnið, til þess að njóta samvista með báðum foreldrum sínum.

Ég hef orðið vör við áhyggjuraddir fagfólks — af því að ég var sjálf mikið að velta fyrir mér að leggja fram mál þessa efnis og var aðeins að viðra það við fólk sem þekkir til — fagaðilar, ljósmæður, hafa haft áhyggjur og horfa m.a. fram á stöðu einstæðra foreldra. Segjum t.d. mæður sem hafa ekki maka sér við hlið og geta ekki leitað til hans og tilvist hans er ekki til staðar í kerfinu. Var skoðað við vinnslu þingmálsins hvort hægt væri með einhverju móti að koma til móts við þá einstæðu foreldra sem eru í slíkri stöðu? Því að þessir fagaðilar sjá þá einstæðu foreldra sem eru í slíkri stöðu fara mjög fljótt út á vinnumarkaðinn að nýju og klára í rauninni ekki þann rétt sem þeir eiga til fæðingarorlofs samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi núna. Mig langaði bara að byrja á þessu.