146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[12:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. flutningsmanni fyrir að leggja fram þetta fína frumvarp. Ég styð frumvarpið og ég styð líka að það verði tekið betur fyrir í hv. velferðarnefnd og þar verði skoðuð ýmis þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni, m.a. um fjölbreytt fjölskylduform. Sú kjarnafjölskylda sem við þekkjum kannski einna helst hefur tekið svolitlum breytingum og er orðin talsvert fjölbreyttari en hún var. Því ætti alltaf að hafa í huga að fólk er margvíslegt, alls konar og margbreytilegt og gæti þurft á mismunandi stuðningi að halda eftir því hvernig fjölskyldan er samsett.

Ég vona að þetta frumvarp verði upphaf að víðtækari vinnu í að bæta löggjöf og stuðning við barnafólk hérlendis, og þá sérstaklega gagnvart þeim sem uppfylla ekki skilyrði til að fá fæðingarorlof, enda mikil verðmæti fólgin í því að fá góða fjölskylduaðstoð, sérstaklega í byrjun þess að fjölskylda er stofnuð. Í því sambandi er þetta mikilvægt mál þar sem lífskjör sérstaklega ungs fólks hafa verið hér mikið til umræðu og eru stundum lakari en í löndunum í kringum okkur. Ég þekki það að margir í kringum mig og í mínum vinahópi eru að stofna fjölskyldu þessa dagana og íhuga að flytja til útlanda. Þar býðst þeim betri stuðningur við fjölskylduna og að koma upp fjölskyldu heldur en þeim býðst hér. Þar af leiðandi tel ég þetta mikilvæga þróun í rétta átt. En ég held að við verðum að taka þetta frá nokkrum eða mörgum hliðum.

Þetta frumvarp eins og margt annað hér er vísbending um hreyfingu í átt að eða betri stuðningi við ungar fjölskyldur. Við sjáum það hér á Alþingi að loksins sjáum við meira að segja skiptiborð sem hefur ekki verið til hingað til inni í þessu húsi, það er svona ákveðin jákvæð þróun sem er að eiga sér stað gagnvart því að vernda betur og styðja betur við barnafjölskyldur hér á þingi sem og annars staðar í þjóðfélaginu.

Mig langar að tala svolítið um mína nálgun á þetta og hvernig hægt er að nálgast réttinn til fæðingarorlofs út frá mörgum hliðum mannréttinda.

Við Íslendingar eða íslenska ríkið er aðili að mörgum mannréttindasáttmálum sem taka akkúrat á þessu, rétti foreldra til að umgangast börnin sín eftir að þau eru nýfædd, rétti mæðra sérstaklega til að fá fæðingarorlof, þar sem þetta eru allt orðnir frekar gamlir sáttmálar sem ég er kannski að vísa í hérna. Þá á ég m.a. við félagssáttmála Evrópu og samning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Þar er sérstaklega tekinn fram réttur kvenna til fæðingarorlofs og réttur kvenna til verndar á vinnumarkaði þegar þær eignast börn. Ekki síður ber að minnast á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem tekur til friðhelgi einkalífs en felur einnig í sér réttinn til fjölskyldulífs, og loks samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, sem felur í sér víðtæk réttindi barns til að njóta stuðnings og nærveru við foreldra sína, og svo víðtækar skuldbindingar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum til þess að styðja við foreldra.

Flest af þeim réttindum sem ég er að telja hérna upp, eða flestir af þessum samningum, eru dæmi um svokölluð félagsleg réttindi. Félagsleg réttindi eru af þeim meiði að ríki heims skuldbinda sig til þess að reyna alltaf að gera betur í að vernda félagsleg réttindi. Þannig að þessi réttindi eru ekki af þessum absalútt toga eins og t.d. borgararéttindi eru, þar sem talað er um að ekki megi gera eitthvað ákveðið, heldur ætli ríkið að reyna að gera eitthvað og alltaf betur og betur eftir sinni bestu getu fjárhagslega.

Ég mundi því vilja ítreka það við þingheim og ríkisstjórnina að þegar kemur að skuldbindingum Íslands gagnvart félagslegum réttindum þegna sinna þá beri okkur alltaf að gera betur í dag en við gerðum í gær, sérstaklega þegar við höfum svigrúm og rými til þess.

Í ljósi þess að núna hefur margoft verið ítrekað að við höfum ágæta stöðu, efnahagslega, þá ætti lítið að standa í vegi fyrir því að við uppfyllum betur þau félagslegu réttindi sem íslenska ríkið hefur nú undirritað og hefur sagst ætla að tryggja og vernda. Ég vil bara impra á þessu því að mér finnst mikilvægt að við reynum að hafa mannréttindi borgaranna í huga við alla lagasetningu sem við setjum hérna, sérstaklega þegar kemur að félagslegum réttindum. Það er ekki nóg að segja bara að hér sé fæðingarorlof. Okkur ber alltaf að reyna að bæta og tryggja betur réttindi foreldra til að vera í kringum börnin sín, réttindi barna til að vera með foreldrum sínum og réttindi okkar allra til að hafa fjölskyldulíf.

Ég vil þess vegna beina því til hæstv. velferðarnefndar að skoða sérstaklega hvernig bætt tilhögun á fæðingarorlofi, eins og að lengja það, verndi betur félagsleg réttindi foreldra og reyna að hafa það svolítið að leiðarljósi í vinnu sinni hvaða alþjóðlegu skuldbindingar Ísland hefur gengist undir þegar kemur að félagslegum réttindum foreldra og barna í því að jafnvel dýpka og bæta þetta frumvarp. Þeirri sem hér stendur finnst að minnsta kosti mjög mikilvægt að við notum þau verkfæri sem alþjóðaskuldbindingar Íslands eru til að stuðla að aukinni framþróun réttinda einstaklinga, til að vernda þá betur og sinna þeim betur en við gerum. Og ekki sé nóg að skrifa undir eitthvert plagg, heldur verðum við alltaf að hafa í huga að félagsleg réttindi eru þess eðlis að við viljum alltaf efla þau betur. Þetta heitir á ensku ef ég fæ að sletta, virðulegi forseti, „progressive realization“. Þetta er eitthvað sem ríkt land eins og Ísland hefur fullkomlega efni á að standa við og styðja við.