146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[12:56]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir andsvarið og falleg orð í garð okkar Framsóknarmanna og þá sérstaklega fyrrverandi hæstv. ráðherra Páls Péturssonar. Ég er sammála hv. þingmanni um það að þarna voru mjög stór og mikilvæg skref stigin í réttindabaráttu og jafnréttisbaráttu foreldra.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við verðum að stíga varlega til jarðar í þessum undanþágum. Ég styð það að sjálfsögðu að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt og við munum skoða undanþágunefnd eða einhvers konar form í hv. velferðarnefnd, hvort það geti verið lausn á málinu að skoða þessi jaðartilvik.

Það hefur líklega komið hálfklaufalega út hjá mér í ræðunni áðan en ég tel þetta mjög gott frumvarp og nauðsynlegt að lengja fæðingarorlofið og finnst þessi löggjöf góð. Það sem ég meinti með orðum mínum var að í vinnu hv. velferðarnefndar munum við skoða fleiri þætti tengda þessari löggjöf, sem eru þá hvort það er undanþága og hvort hún eigi jafnvel heima í einhverjum öðrum lögum, að við víkkum út rétt foreldra þar. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að ekki ætti að skerða greiðslur í fæðingarorlofi sem eru undir lágmarkslaunum í landinu og er mjög til í að skoða það í vinnu hv. velferðarnefndar hvort við getum hækkað það eitthvað.