146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það var ýmislegt athyglisvert sem þar kom fram. Ég fagna áhuga hans á að fara í heildstæða yfirferð á fiskveiðistjórnarkerfinu og því að hann sé tilbúinn til breytinga í þeim efnum.

Framsalið er einn af grundvallarþáttunum í kvótakerfinu, heyrðist mér hann segja. Það er athyglisvert að bera orð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar saman við orð hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar sem talaði hér áðan. Fyrst ég hef nú færi á því langar mig að spyrja hv. þingmann út í þau orð, því að ég gat ekki skilið hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson öðruvísi en svo að hann væri í grundvallaratriðum mjög sammála þeirri tillögu sem við ræðum hér og flokkurinn sem hann situr fyrir hefur talað mjög fyrir róttækum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu með innköllun aflaheimilda og að markaðslausnir verði notaðar til að bjóða þær aftur út. Nú vill svo til að þessir tveir hv. þingmenn sitja saman í stjórnarmeirihluta. Þeir hljóta að þurfa að koma sér saman um þá endurskoðun í fiskveiðistjórnarkerfinu sem ég gat ekki skilið annað en að hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson væri að boða.

Tekur hv. þm. Ásmundur Friðriksson undir þær hugmyndir sem Viðreisn, og þá ráðherra sjávarútvegsmála, hefur lagt fram um hvaða leið á að fara í endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins, með innköllun aflaheimilda og svo útboði á markaði?